Valsmenn komu í heimsókn í Hertz Hellinn í kvöld og var tilefnið seinni viðureign ÍR og Vals í D-riðli Lengjubikarsins. Fyrir leik voru möguleikar Valsmanna að vinna riðilinn engir, ÍR-ingar gátu hinsvegar með sigri jafnað Þór að stigum og treyst á hagstæð úrslit í leik Þórs og Njarðvíkur. Allt mjög fjarstæðukennt og því ljóst að í Hertz Hellinum myndi bara eiga sér stað gamaldags slagur Reykjavíkurliðanna.
 
Fyrsti leikhlutinn fór vel af stað í fyrstu með góðum körfum hjá báðum liðum. ÍR liðið virtist ætla að sigla hratt framúr eftir nokkurra mínútna leik og tók þá Ágúst þjálfari Valsmanna leikhlé. Það virtist virka hjá Ágústi að tala við sína menn því að Valsmenn náðu forystu 16-18 þegar um 3 mínútur voru eftir af leikhlutanum. Þá tók Jón Arnar þjálfari ÍR leikhlé til að stilla saman strengi. Leikhlutinn einkenndist af mikilli baráttu og mistökum hjá liðunum og leiddi Valur leikinn með einu stigi 22-23.
 
Annar leikhlutinn var nánast afrit af fyrsta leikhluta, þar sem fátt var um fína drætti hjá liðunum og leikurinn hélst nokkuð jafn út hálfleikinn og áður en haldið var inní klefa leiddu ÍR-ingar með tveimur stigum 50-48.
 
Seinni hálfleikur hófst með flugeldasýningu Chris Woods hjá Val sem var búinn að setja 32 stig á töfluna áður en þriðji leikhlutinn var úti, bauð hann uppá allt litrófið með troðslu,þristum og laglegum sniðskotum. Á meðan þessu stóð þá vildi boltinn ekki ofan í hjá ÍR-ingum sem með einhverju móti náðu þó að halda forystunni eftir þriðja leikhluta 79-75.
 
Eins og gerist í jöfnum leikjum þá var kominn smá æsingur í alla í húsinu og hafði það sín áhrif. ÍR liðið náði mjög hægt og rólega þægilegri forystu og var staðan 96-89 þegar Valsliðið tók leikhlé og tæpar þrjár mínútur til leiksloka. Aftur virtist leikhlésræða Ágústs bera tilætlaðan árangur því Valsmenn tóku vel við sér eftir leikhléið og settu niður 8 stig í röð með tveimur þristum frá Benedikt Blöndal og Ragnari Gylfasyni, einnig setti Chris Woods niður tvö stig. Valsmenn því komnir með 1 stigs forystu og 1:29 eftir af leiknum. Enn og aftur stemmdi því í háspennuleik í Hertz Hellinum og Jón Arnar tekur leikhlé. Ekki í fyrsta sinn í haust sem áhorfendur í Hertz Hellinum verða vitni af spennuleik fram á síðustu sekúndu.
 
Eric Palm fær að gjöf ferð á vítalínuna og setur bæði skotin örugglega niður. Valsmenn leggja upp í sókn sem misheppnast og Hreggviður nær boltanum eftir gott frákast, er þá dæmd fimmta villan á Ragnar Gylfason og Hreggviður stefnir á vítalínuna á hinum enda vallarins. Fyrra skot hans dettur uppúr hringnum en seinna setur hann örugglega. Valsmenn leggja upp í sókn, Woods keyrir inní teiginn og fiskar fimmtu villuna á Sovic, Woods setur bæði skotin niður og staðan jöfn 99-99. ÍR-ingar missa boltann klaufalega útaf þegar 33 sekúndur eru eftir og Valsmenn taka leikhlé til að freista þess að setja upp lokasókn sem tryggir þeim sigurinn.
 
Það var augljóst að Chris Woods átti að taka af skarið sem hann og gerði með misheppnuðu skoti af póstinum, eftir mikinn barning í teignum þá náði hann þó frákastinu aftur og fiskaði villu og um leið ferð á vítalínuna. Hann var mjúkur á línunni og setti niður bæði nokkuð örugglega. ÍR tekur ekki leikhlé heldur er keyrt af stað í lokasóknina þegar 15 sekúndur eru eftir, boltinn endar á Hjalta Friðrikssyni fyrir utan bogann sem reynir við sigurkörfuna á síðustu andartökum leiksins. Skotið geigaði þó og Valsmenn fögnuðu verðskulduðum sigri.
 
 
Mynd úr safni/ Chris Woods setti 42 stig á ÍR í kvöld!