Arnar Guðjónsson þjálfari BC Arhus í dönsku úrvalsdeildinni rýnir í umferð kvöldsins í Domino´s deild karla. Þökk sé beinum netútsendingum og lifandi tölfræði hefur Arnar fínan púls á boltanum hér heima. Arnar verður í eldlínunni í kvöld þegar BC Arhus tekur á móti SISU.
 
Síðast þegar SISU og BC Arhus mættust fyrir um mánuði síðan fengu Arnar og félagar skell: ,,Þeir flengdu okkur fyrir mánuði síðan með 25 stiga mun. Við erum komnir með nýjan kana núna og maður vonar bara að það sé ,,up-set” í uppsiglingu,” sagði Arnar en nýji leikmaður BC Arhus heitir Charles Funches. Fyrir hjá félaginu eru Íslendingarnir Arnar Freyr Jónsson og Guðni Heiðar Valentínusson. Í níu leikjum er Arnar með 7,3 stig og 5,1 stoðsendingu að meðaltali í leik en Guðni með 4,6 stig og 2,5 fráköst í 10 leikjum.
 
Sjáum hvað Arnar hefur að segja um kvöldið í Domino´s deild karla:
 
KR-Grindavík
Bæði lið eru með frábæran hóp. KR er búið að eiga erfitt start en eru allir að koma til. Grindavík eru búinir að vera nokkuð solid, báðir kanarnir eru gríðarlega flottir. KR-ingar eru hinsvegar með einungis einn útlending. Held að það komi til með að telja stórt í kvöld. Grindavík tekur þennan.
+10 Grindavík
 
KFÍ-ÍR
Ísfirðingar eru komnir með nánast nýtt lið eftir pásuna. Nýir útlendingar og Hlynur kominn frá DK og Kristján að komast í gír. ÍR-ingar með hörku sóknarlið, en hafa átt mjög erfitt með að skora á útivelli. Held að KFÍ verði vel undirbúnir í kvöld og landa stórum sigri.
KFÍ +3
 
Fjölnir-Njarðvík
Hér takast á tveir fallegustu aðstoðarþálfarar Íslands. Verður án nokkurs vafa mjög spennandi stríð á hliðarlínunni, vona að leikurinn falli ekki í skuggan á því.
Bæði liðin eru mjög skemmtileg, Fjölnir keyra gríðarlega upp hraðann. Njarðvíkingar eru með rosalega flott lið, ungu strákarnir verða bara reyndari með hverjum leiknum. Fjölnis strákarnir hafa haft gott tak á Njarðvík síðustu árin, hafa unnið 5 af 6 leikjum. Reikna með að það snúist við í kvöld.
Njarðvík eftir OT
 
Tindastóll-Þór Þorlákshöfn
Stólarnir eru komnir í góðan gír eftir að hafa lyft bikar um helgina. Ætti að fleyta þeim langt gegn vængbrotnu liði Þórsara. Gestirnir munu sakna Baldurs og Grétars. Ef timburmenn eru ekki ennþá að hrjá Norðanmenn eftir gleði helgarinnar þá taka þeir þetta.
Tindastóll 10+
 
Keflavík-Snæfell
Keflvíkingar að verða komnir á skrið eftir erfiða byrjun. Snæfell búnir að vera frábærir í vetur í þeim leikjum sem ég hef séð.
Það verður nóg skorað í Keflavík í kvöld, bæði lið eru up tempo. Held að það komi til með að sitja í Snæfellingum að hafa spilað tvo leiki um helgina og því verður þetta Keflavíkursigur, í hörku leik.
+5 Keflavík
 
Skallagrímur-Stjarnan
Þetta verður heljarinnar skemmtun, Skallarnir eru búnir að koma mér skemmtilega á óvart í vetur, og allir vita að Fjósið er erfitt heim að sækja. Stjörnumenn er á sama tíma kandítatar í að sigra þetta allt í vor. Frábær blanda af ungum flottum strákum og síðan reynsluboltum. Stjörnumenn eru líklegri í kvöld. Hinsvegar ef ég ætla að fá að koma heim í Borgafjörðinn í jólasteikina þá verð ég að setja heimasigur hér. Það verður allt vitlaust í Hyrnunni eftir ”upset” hjá heimamönnum.
Skallagrímur +3
  
Þökkum Arnari fyrir þessa rýni en hægt verður að fylgjast með honum og Íslendingaliðinu BC Arhus í lifandi tölfræði, hér í kvöld