Andri Þór Kristinsson, höfuðpaurinn á Leikbrot.is, tók vel í það þegar Karfan.is bað hann um að rýna í leiki kvöldsins. Kappinn átti ekki í neinu einasta basli með þetta.
 
Umferðin leggst vel í mig enda áhugaverðar viðureignir.
 
Þórsarar munu hafa sigur á erfiðum útivelli á Ísafirði. Kanabrölt á KFÍ mönnum en ég er reyndar ekki með á hvernig þau mál standa né hvort þeir séu komnir með mann í stað Chris Miller en menn þurfa bara að vera 100% gegn sterku liði Þórs. Strákarnir hans Benna eru flottir og liðið vel mannað í öllum stöðum.  Varnarlega eru Þórsarar sterkir og með þá Diggs, Flake og Grétar í teignum þurfa Ísfirðingar að eiga toppleik og ná saman sem lið til að eiga einhverja möguleika. 
 
Nokkurnveginn það sama í Dalhúsum. Útlendingavesen á Fjölni og Snæfell með allt á hreinu hvað varðar skipulag og leikform. Á góðum degi geta  Fjölnismenn unnið alla í þessari deild en þeir eru með unga og spennandi leikmenn í öllum stöðum en á tímum er eins og það vanti frekjuna. Hún kemur kannski með aldrinum en þar hafa Hólmarar vinninginn.
 
Ég verð að spá Keflavík sigri í þessum þó ég voni að Stólarnir fari að sýna hvað í þeim býr. Þegar þetta lið smellur þá eiga góðir hlutir eftir að gerast fyrir þá eins og þeir sýndu með góðum sprettum á síðasta leiktímabili. Vonandi þjappa þeir sér saman og ná árangri og það í þetta sinn án þess að skipt sé um útlendinga og þjálfara. Keflavíkingar hafa verið fínir en eiga líklega slatta inni ennþá bæði í erlendu leikmönnum sínum sem og ungu strákunum. Margir að tala um Magga Gunn. Hann getur skorað ennþá og svo um munar. Það kemur að því og þá örugglega á hundleiðinlegum tímapunkti fyrir andstæðinga Keflavíkur.
 
Hörkuleikur í Borgarnesi. Íslandsmeistararnir heimsækja nýliðana en liðin eru á svipuðum stað í deildinni. Páll Axel fær að finna fyrir því frá félögunum í Grindavík en Haminn er svakalegur í liði Skallana og er líklega orðinn hress. Ég ætla að spá Skallagrími sigri þessvegna og bara af því að þá langar það meira.   ..var ég búinn að minnast á Simma Egils?
 
Þökkum Andra fyrir þetta innslag og munið gott fólk, Leikbrot.is – allan daginn alla daga!