Með kvennalið Keflavíkur enn ósigrað á toppi Domino´s deildarinnar og karlaliðið búið að háma í sig fimm leiki í röð ætti Siggi Ingimundar að geta slett smá skyri því hann virðist eiga nóg af því þessi dægrin. Siggi var þó hógværðin uppmáluð þegar Karfan.is hafði samband við hann eftir viðureign Keflavíkur og Snæfells í gær þar sem Keflvíkingar fóru með fjögurra stiga sigur af hólmi í Toyota-höllinni.
 
Aðspurður um viðsnúninginn úr 0-3 stöðu í 5-3 stöðu sagði Sigurður: ,,Við fengum menn seint til liðsins og vorum að hrista þetta saman þegar mótið byrjaði. Það gekk brösuglega til að byrja með en hefur gengið betur undanfarið. Við skiptum svo um erlendan leikmann og það tekur smá tíma að ná endum saman,” sagði Sigurður sem með karlaliði Keflavíkur í gær batt enda á fimm leikja deildarsigurgöngu Snæfells.
 
,,Við erum þó enn að spila hluta af leikjum okkar ferlega illa. Fyrsti leikhluti gegn Snæfell var ömurlegur en frammistaðan þó flott eftir hann. Þetta hefur verið ströggl en menn hafa þó verið að ná því að koma sér í gírinn,” sagði Sigurður og var ánægður með að Keflavík hafi tekist að loka á flesta leikmenn Snæfells nema ,,swaggerinn” Jón Ólaf.
 
,,Snæfell hefur verið besta liðið framan af vetri og Jón Ólafur hefur spilað mjög vel. Okkur tókst að loka meira og minna á flest aðra en hann en Snæfell er með góða þriggja stiga nýtingu og við náðum að loka svolítið á þristana, það hjálpaði og við lögðum upp með að frákasta vel í leiknum og ógna skotunum þeirra,” sagði Sigurður sem er keppnismaður fram í fingurgóma og fagnar þessari jöfnu úrvalsdeild þar sem nú fjögur lið sitja jöfn á toppi deildarinnar og Keflvikingar steinsnar undan.
 
,,Þessi deild er bara jöfn, við getum fullyrt það núna en menn voru svona framan af að kasta því fram í svona klisju. Liðin fyrir neðan topp fimm liðin eru ekki langt á eftir og við t.d. rétt sluppum bara með sigur gegn Tindastól í Skagafirði og þeir eru án stiga í deildinni, það er ekkert lið í þessari deild sem er ekki gott og frábært að hafa það þannig, það er bara töffaraskapur.”
 
Finnst honum karlaliðið sitt eiga eitthvað inni þó fimm sigurleikir í röð hafi litið dagsins ljós?
 
,,Já við eigum slatta inni, nokkrir hlutir sem við þurfum að gera betur og eigum fleiri menn líka inn sem koma hægt og rólega í þetta eins og ungu strákarnir. Þegar þeir komast betur inn í þetta þá vonandi verðum við betri í leiðinni.”