Frammistaða Helga Magnússonar í síðustu umferð tryggði honum nafnbótina Gatorade-leikmaður þriðju umferðar í Domino´s deild karla. Helgi vippaði þá KR liðinu á bak sér og bar þá í átt til sigurs eftir að Kristófer Acox hafði gefið tóninn í útisigri KR gegn Keflavík. Það eru fréttaritarar og ljósmyndarar Karfan.is sem velja Gatorade-leikmann hverrar umferðar og ákváðu þeir að klappa Helga á bakið fyrir að stýra nánast lygilegri endurkomu KR liðsins í Toyota-höllinni.
 
Keflvíkingar voru mun sterkari aðilinn stærsta hluta leiksins en KR maskínan hrökk í gang á lokasprettinum þar sem Kristófer Acox kom inn með læti og fyrir vikið hlaut hann nokkur atkvæði í kjörinu þessa umferðina en Helgi stóð að lokum uppi sem sigurvegari.
 
Helgi setti niður alla fimm þristana sína í leiknum og skoraði 27 stig, tók 5 fráköst og gaf 6 stoðsendingar í leik sem KR vann með tveggja stiga mun, 83-85. Mögnuð frammistaða hjá spilandi þjálfara KR
 
Carlos Medlock og Ben Smith fengu einnig atkvæði í þessari umferð.
 
Við ræddum eldsnöggt við Helga af þessu tilefni en hann tekur á móti Snæfell annað kvöld í fjórðu umferð Domion´s deildarinnar.