,,Við höfum farið aðeins yfir þetta og menn eru svona að kyngja þessu enda vorum við að spila á móti einu sterkasta liði heims," sagði Peter Öqvist landsliðsþjálfari Íslands þegar Karfan.is náði tali af honum. Ísland tapaði með 50 stiga mun í vináttulandsleik gegn Litháen í dag en Peter segir að íslenska liðið muni taka vel á því og koma mun sterkara til leiks gegn Serbum þegar þeir mæta í Laugardalshöll þann 14. ágúst næstkomandi.
,,Í fyrsta lagi er þetta leikur þar sem Litháar sýndu styrkleika sína og á hvaða ,,leveli" þeir eru. Litháen er með heimsklassa lið og það sem við verðum kannski að átta okkur á er að þeir voru að klára útsláttarkeppnina fyrir laus sæti á Ólympíuleikunum og eru því í mjög góðu formi. Vitandi þetta eru samt nokkrir hlutir sem við gerðum vel og við getum bætt okkar leik og ef fáum annað tækifæri gegn Litháen í framtíðinni þá munum við gera betur.
Til að Ísland eigi kost á því að vinna stórþjóðir í körfubolta verðum við að vinna betur saman sem lið, hreyfa boltann mjög hratt og vel inn og út úr teignum og nýta hraðann okkar betur. Í dag gekk boltinn hægt og að skora í 1 á 1 aðstæðum gegn liði eins og Litháen er mjög erfitt. Þeir settu okkur í erfiðar aðstæður þar sem við náðum lítilli dýpt í okkar leik," sagði Peter en skammt er að bíða þess að Ísland mæti öðru liði á topp 10 í styrkleikalista FIBA þegar Serbar mæta til landsins í Evrópukeppninni.
 
,,Ef við lítum á okkar frammistöðu í dag getum við fullvel sagt að hún verði betri gegn Serbíu þann 14. ágúst enda situr svona leikur í mönnum. Næst verðum við á heimavelli og Serbar verða mun skemur á veg komnir í sínum undirbúningi heldur en það lið sem við mættum í dag. Þetta verður fyrsti leikur okkar og fyrsti leikur Serba á EM og þeir hafa ekki verið í undirbúningi fyrir Ólympíuleika undanfarið. Leikurinn verður þó alls ekki auðveldur en okkar frammistaða mun verða betri en í dag," sagði Peter en hvað með persónulegar frammistöður leikmann í dag?
 
,,Jón Arnór er klárlega leikmaður á sama plani og leikmenn landsliðs Litháen og hann gæti hafa verið betri í nokkrum atriðum í dag en Litháar einbeittu sér að honum og gerðu honum erfitt fyrir. Ægir Þór Steinarsson átti mjög góðan leik og Pavel lék einnig vel að mínu mati. Leikurinn sem slíkur var virkilega góður fyrir Hlyn Bæringsson og Hauk Helga Pálsson en það er mikilvægt fyrir þá að átta sig á því hvernig við þurfum á þeim að halda í t.d. Evrópukeppninni, þetta eru allt breytingar sem verður að venjast," sagði Peter sem er þó ekki búinn að ákveða endanlega lokahópinn fyrir Evrópuverkefnin.
 
,,Við höfum æft stíft og þegar við komum heim verður smá hvíld en undirbúningurinn fyrir EM verður strangur enda verðum við að undirbúa okkur fyrir alla keppnina. Á meðan keppni stendur er lítill tími til æfinga enda mikið um flug milli leikja og þessháttar svo undirbúningurinn fram að 14. ágúst þarf að vera virkilega góður.
Í dag er 12 manna hópurinn ekki endanlegur, þetta eru í raun alls 13 leikmenn sem eru á leikmannalistanum okkar," sagði Peter en þeir Magnús Þór Gunnarsson og Fannar Freyr Helgason hafa ekki verið með liðinu síðustu æfingar sökum meiðsla og Jakob Örn Sigurðarson fór ekki með til Litháen þar sem hann á von á sínu öðru barni. ,,Ég er sáttur með þennan hóp núna en það eru einnig kostir við að vera með 13 leikmenn í hóp," sagði Peter sem hefur fengið risavaxin verkefni með íslenska liðið, fyrst Kína á síðasta ári og nú Litháen og Serbar handan við hornið.
 
,,Þessi leikur í dag og leikirnir gegn Kína eru í það minnsta góðar minningar. Þetta er lærdómsrík reynsla og þegar vonbrigðin yfir lokatölunum í dag eru yfirstaðin þá munum við koma sterkir út úr þessu."
 
Mynd/ Tomasz Kolodziejski
 
nonni@karfan.is