Nick Bradford ættu flestir að þekkja hér á landi en kappinn er eini erlendi leikmaðurinn sem lék með öllum Suðurnesjarisunum í úrvalsdeildinni. Með Keflavík vann hann tvo titla og var hársbreidd frá því að tryggja Grindvíkingum titilinn hér um árið. Karfan.is hafði samband við kappann og spurði hann hvað væri að frétta þessa dagana hjá honum.
,,Körfuboltaferlinum er lokið, þar að segja sem spilandi leikmaður en ég hef snúið mér algerlega að þjálfun og sem stendur þjálfa ég í junior háskóla. Ég fer hinsvegar á næstu dögum í atvinnuviðtal við 2. deildar skóla hér heima," sagði Bradford og virtist vera mjög upptekinn. 
 
Þar sem að kappinn er nú komin út í þjálfun spurðum við hann út í það hvort hann hefði jafnvel áhuga að koma til Íslands og þjálfa og þá sérstaklega út í einu lausu stöðuna í úrvalsdeildinni hjá KR. ,,Ég myndi vissulega skoða það og þá þyrfti það að vera góður samningur," sagði Bradford við Karfan.is