Íþróttalífið í Hveragerði tók stakkaskiptum um helgina sem og Hveragerðisbær allur þegar mjúkhýsi þeirra var blásið upp. Um er að ræða fyrsta mjúkhýsið á Íslandi en þessi mannvirki eru þekkt stærð úti í hinum stóra heimi. Þökk sé gufuveitunni í Hveragerði mun hitun á húsinu haldast í lágmarki.
Karfan.is setti sig í samband við Lárus Inga Friðfinnsson formann Körfuknattleiksdeildar Hamars en hann er einnig eiginmaður bæjarstjóra Hveragerðisbæjar svo á því heimilishaldinu var kátt um helgina.
 
,,Ég er gersamlega loftlaus eftir helgina," sagði Lárus kátur þegar Karfan.is hafði samband. ,,Íþróttaandinn hefur svifið hér yfir vötnum, við reistum þetta á laugardagsnótt en það þarf að vera alveg logn þegar þetta er reist. Svo var maður eins og lítill krakki þegar inn var komið, þetta var gaman," sagði Lárus en lofthæð hýsisins er 15 metrar og um 1000m2 íþróttagólf að ræða. ,,Þetta er snilld og á eftir að bæta alla aðstöðu hér í Hveragerði," sagði Lárus en körfubolti er á meðal þeirra íþrótta sem æfðar verða í mjúkhýsinu.
 
,,Við fáum einnig fleiri og betri tíma með tilkomu hússins en við náðum ekki að fá jafn marga tíma í körfunni og við vildum í gamla húsinu. Nú er verið að setja parket á gamla íþróttahúsið sem verður áfram okkar heimavöllur í körfunni. Það er byrjað að rífa dúkinn af og parketið verður komið á fyrir næsta tímabil svo það er allt á fullu hjá okkur."
 
Aðspurður hvort ekki stæði nú til að mála hýsið í felulitum og láta það falla betur inn í umhverfi sitt svaraði Lárus: ,,Nei því ef þú gerir það þá verður myrkur inni. Með því að hafa dúkinn hvítann og frístandani ljóskastara inni sem lýsa upp í þakið fæst mikil og góð lýsing innandyra í hvítu seglinu," sagði Lárus sem er starfsmaður hjá Kjörís í Hveragerði. Liggur þá ekki beinast við að setja Kjörís merkið á mjúkhýsið?
 
,,Mjúkhýsi, mjúkís, þetta spilar allt saman. Fyrirtækið á það mögulega inni hjá íþróttahreyfingunni hér í bæ að merki þessi verði nú komið fyrir haganlega í húsinu," sagði Lárus sposkur en húsið verður opinberlega tekið í notkun þann 19. ágúst næstkomandi.
 
,,Klippt verður á borðann 19. ágúst og ég hef það fyrir satt að tölvupóstum hafi rignt yfir bæjarskrifstofurnar þar sem menn hafi lýst áhuga á því að koma í heimsókn og skoða mannvirkið. Þetta er líka engin smá gjöf sem bæjarfélagið er að gefa okkur, heil íþróttahöll! Það tel ég nú ansi gott fyrir 2300 manna bæjarfélag."
 
 
Mynd/ Jón Björn Ólafsson – Tekið í Kömbunum ofan við Hveragerði um helgina.
 
nonni@karfan.is