Íslenska A-landsliðið mætir fyrnasterku liði Litháen í dag kl. 16:00 að íslenskum tíma í Siemens höllinni í Vilnius. Búist er við að um 9000 manns verði á leiknum en Litháar eru nú í lokaundirbúningi fyrir Ólympíuleikana í London.
Ísland hefur þegar leikið einn æfingaleik ytra gegn úrvalsliði frá Litháen sem vannst. Karfan.is setti sig í samband við Friðrik Inga Rúnarsson framkvæmdastjóra KKÍ sem staddur er í Litháen með liðinu.
 
,,Ferðin hefur gengið mjög vel, hér hefur liðið fengið tækifæri á því að vera mikið saman sem þjappar hópnum saman. Leikurinn á laugardaginn var á köflum ágætur en liðið getur spilað betur. Hafa verður í huga að um fyrsta leik liðsins var að ræða og með það í huga þá er hægt að vera bærilega sáttur með leikinn sem slíkan. Úrvalslið Litháen skartaði nokkrum mjög góðum leikmönnum en leikmenn þess eru ekki allir að spila saman hjá félagsliði. Eins og oft áður þá var lið þeirra hávaxnara en okkar," sagði Friðrik Ingi og kvað æfingar hafa gengið vel.
 
,,Það er æft tvisvar á dag og svo eru videófundir inn á milli. Leikurinn á morgun gegn Litháen verður erfiður og í allt öðrum flokki en leikurinn sl. laugardag. Litháen er í topp 10 í heiminum og því verður verkefnið erfitt en um leið skemmtilegt og nauðsynlegt fyrir leikina í Evrópukeppninni. Það má segja að styrkleiki Litháen sé svipaður og Serbíu svo það er frábært að fá leik á þessum tímapunkti gegn svo sterkum andstæðingi," sagði Friðrik og sló botninn með þessu:
 
,,Það er allt til fyrirmyndar hjá heimamönnum og má segja að það sé dekrað við okkur og erum við afar þakklátir fyrir það."
 
Mynd/ Peter Öqvist þjálfari Íslands fær vandasamt verkefni í dag þegar Ísland mætir Litháen.
 
nonni@karfan.is