Hörður Axel Vilhjálmsson mun ekki taka þátt í Evrópukeppninni með Íslandi þetta árið en fyrsti leikur er gegn Serbum í Laugardalshöll þann 14. ágúst næstkomandi. Hörður hefur dregið sig úr íslenska hópnum þar sem félagslið hans, Mitteldeutcher BC, vill að leikmaðurinn komi til æfinga. Hörður hefur þegar sagt að ákvörðunin um að yfirgefa landsliðið hafi verið erfið en virðist ekki eiga marga kosti í stöðunni. Ljóst má vera að félagslið hans hefur beitt hann þrýstingi um að fyrirgera sæti sínu í landsliðinu og af þeim sökum setti Karfan.is sig í samband við Hannes S. Jónsson formann KKÍ.
Er það letjandi að halda úti landsliði þegar félagsliðin setja mönnum afarkosti eins og augljóslega var gert í þessu tilfelli?
Ég get nú ekki sagt að það sé letjandi en jú þetta veldur okkur ákveðnum áhyggjum.
Hefur KKÍ/íslenska landsliðið engin vopn í sínum höndum gegn félagsliðunum í svona málum?
Jú, jú reglurnar eru þónokkuð skýrar með þessi mál, samböndin hafa rétt á sínum leikmönnum yfir sumartímann fram yfir EM í okkar tilfelli en félögin eiga rétt á leikmönnunum yfir keppnistímabil félagsliðanna. Því miður þá eru samt of mörg félög í Evrópu sem virða þetta ekki og þrýsta á sína leikmenn að spila ekki með landsliðum sínum. Við höfum verið að eignast fleiri og fleiri atvinnumenn á undanförnum árum sem er mjög jákvætt en að sama skapi koma upp vandamál sem þessi og við sem förum fyrir sambandinu munum þurfa að setjast vel yfir þessi mál að lokunu EM í haust.
Er búist við því að fleiri leikmenn og þá jafnvel atvinnumenn heltist núna úr lestinni og taki ekki þátt í komandi landsliðsverkefnum því þeir þurfi að vera komnir til félagsliða sinna?
Ég býst ekki við að fleiri leikmenn hellist úr lestinni af sömu ástæðu eða réttara sagt ég veit að það mun ekki gerast.
Er mönnum stillt upp við vegg? Eins og Herði í þessu tilfelli? Þá núna í tilfelli Harðar mun KKÍ standa í vegi fyrir honum að fara til síns félagsliðs í Þýskalandi?
Nei við munum ekki gera það, við gerum okkur grein fyrir að þetta var erfið ákvörðun fyrir Hörð, eins og ég sagði hér aðeins fyrr þá munum við skoða þessi mál vel eftir landsleikjatörnina í haust hvernig við munum taka á málum sem þessum alveg óháð ákvörðun Harðar. Það er staðreynd að yngri landslið og A-landsliðin okkar er sá vettvangur sem íslenskir leikmenn geta sýnt sig á erlendum vettvangi og því er landslið stærsti glugginn viljir þú verða atvinnumaður í körfubolta eins og staðan er í dag.
Tengt efni:
nonni@karfan.is