Nú fyrri skömmu varð það ljóst að Hörður Axel Vilhjámlsson mun ekki koma til með að taka þátt í gríðarlega spennandi landsliðsverkefni sökum þess að undirbúningstímabilið hjá félagsliði hans í Þýsklandi er á sama tíma og tók hann þá erfiðu ákvörðun að yfirgefa landsliðið fyrir Mitteldaucher BC.
Hörður viðurkenndi það í samtali við Morgunblaðið að forráðamenn MBC væru lítt hrifnir af því að hann yrði ekki með liðinu frá byrjun. Vissulega setur félagsliðið þarna pressu á leikmanninn um að koma fyrr og gefa upp landsliðssæti. En er þetta einsdæmi? Svo sannarlega ekki því Karfan.is fór á stúfana og heyrði í öðrum landsliðsmanni, Loga Gunnarssyni og spurði hann útí þessi mál.
"Það er nú þannig að Franska liðið sem ég fer til núna í haust vildu fá mig út í byrjun ágúst en ég sagði þeim að ég væri í landsliðsverkefni fram í miðjan september. Þá sögðust þeir ekki byrja að greiða laun fyrr en ég kæmi út . Umboðsmaðurinn minn vann í þessu og náði ágætis lendingu en vissulega þarf ég að sætta mig við launatap. Og þetta er ekki í fyrsta skipti sem svona lagað hefur komið fyrir á mínum ferli því miður. " sagði Logi við Karfan.is í dag.
"Enn þrátt fyrir þetta þá skil ég Hörð algerlega 100% varðandi hans ákvörðun og því það er fátt verra en að lenda í kuldanum hjá þjálfaranum og þurfa að verma tréverkið lungan úr vetri. En þegar á heildina er litið þá þarf að taka á því að þjálfarar og stjórnarmenn geti sett svona pressu á leikmenn í að koma. Og þá jafnvel þurfa að sleppa frá sér landsliðsverkefnum. Því það er fátt sem fyllir mann meira stolti en að spila fyrir land og þjóð." sagði Logi Gunnarsson