Giordan Watson kveður Grindavík með eftirsjá en hann samdi nýverið við lið í finnsku úrvalsdeildinni og því þurfa gulir og glaðir að finna sér annan leikstjórnanda fyrir komandi tímabil þegar titilvörn þeirra hefst í Domino´s deildinni. Karfan.is náði í Watson sem kvaðst ánægður með dvöl sína á Íslandi á síðustu leiktíð. Hann hefur skilaboð fram að færa til vina sinna á Íslandi, þau hafa með matvælaflutninga að gera.
,,Ég er spenntur fyrir næstu leiktíð í Finnlandi. Sem keppnismaður er ég alltaf að leita eftir nýrri áskorun og mér leist vel á þessa. Liðinu gekk ágætlega á síðustu leiktíð, höfnuðu í 4. sæti og duttu svo út í fyrstu umferð úrslitakeppninnar svo ég vonast til að geta fært liðinu leiðtoga og hjálpa því að verða betri frá degi til dags. Ég held að þetta hafi í raun líka verið staðan þegar ég samdi við Grindavík fyrir síðasta tímabil, frekar kaldhæðið en ég verð svo að fá J´Nathan Bullock líka, verð að hafa lífvörðinn minn með," sagði Watson léttur á manninn þegar Karfan.is hafði samband.
 
,,Að segja skilið við Grindavík var erfið ákvörðun. Ég get í sannleika sagt að þar átti ég einhverja bestu liðsfélaga og þjálfara sem ég hef nokkurn tíman haft. Að því er sjaldnast hægt að ganga að sem vísu í körfuboltanum og ég get ekki undirstrikað nægilega hversu mikið ég naut þess að spila með Grindavík á síðasta tímabili. Þeir gerðu starf mitt sem leikstjórnandi svo auðvelt og skemmtilegt. Jafnvel fólk utan körfuboltans tók manni opnum örmum, að yfirgefa svona aðstæður var erfið ákvörðun. Síðasta tímabil var bara skemmtilegt í alla staði og að klára með titlinum gerði þetta enn betra. En sendið mér Skyr-köku, takk!"
 
nonni@karfan.is