Nú styttist óðar í Evrópukeppnina hjá U18 ára karlalandsliði Íslands en hópurinn heldur til Bosníu strax eftir Verslunarmannahelgi. Karfan.is ræddi við Einar Árna Jóhannsson þjálfara liðsins en hann segir hópinn meðvitaðan um að verkefnið verði erfitt. Ísland keppir í B-deild og sigurlaunin sem eru í boði eru sæti í A-deild í næstu keppni hjá íslensku 18 ára liði svo það er til mikils að vinna.
Hvernig hafa æfingar gengið í sumar?
Æfingar hafa gengið vel. Þessir 12 sem við völdum í EM hópinn hafa verið duglegir og ágætis gangur á okkur þó svo að við ætlum að nýta síðustu dagana vel til að undirbúa okkur enn frekar fyrir átökin.
 
Staðan á hópnum, allir heilir og klárir sem valdir hafa verið í verkefnið?
Staðan er bara nokkuð góð á hópnum já. Mannskapurinn er heill og menn að komast í fínan gír.
 
Hvað hafið þið verið að leggja upp með fyrir mótið?
Við höfum verið að vinna með hluti sem misfórust á NM. Höfum verið að vinna töluvert með varnarleikinn sem og þætti sóknarlega sem að við tækluðum ekki vel á NM.
 
Væntingar þjálfararans?
Við vitum sem er að verkefnið verður erfitt. Við erum í erfiðum riðli en væntingarnar liggja í því að mannskapurinn leggi allt sitt í verkefnið og sjá hverju það skilar. EM er náttúrulega frábær reynsla fyrir þessa stráka og menn fara brattir inn í verkefnið. Þessi hópur hefur jú bara tapað einum leik eftir að hafa farið í gegnum fín verkefni í U15, U16 og U18 en Evrópukeppnin er náttúrulega töluvert stærra verkefni og gaman fyrir þessa stráka að máta sig við stærri þjóðir.
 
Önnur lið í riðlinum, þekkið þið eitthvað til þeirra?
Eins og ég sagði áðan, þá er riðillinn sterkur. Miðað við þær upplýsingar sem við höfum um Sviss þá er þetta sterkur árgangur hjá þeim og þeir eru með framherja sem er sagður NBA efniviður svo þeir verða klárlega erfiðir. Svartfjallaland er bara eins og öll liðin úr gömlu Júgóslavíu, hörkulið sem verða erfiðir viðureignar. Svo erum við með þremur Norðurlandaþjóðum sem er náttúrulega sérstakt. Við erum þarna 4 lið í sex liða riðli og að þessi fjögur af tuttugu og tveimur þátttökuþjóðum skuli lenda öll í sama riðli er náttúrulega hálfótrúlegt. Þessi lið þekkjum við vel, og þau okkur enda spilað gegn þeim á hverju ári undanfarin þrjú ár. Norðmenn áttu erfitt uppdráttar gegn okkur á NM, en við erum samt ekkert búnir að gleyma því að þeir lögðu Svía í mótinu og eru alls ekki eitthvað auðvelt verkefni. Svíarnir eru feykisterkir og það bætast nú tveir strákar við hjá þeim frá NM, sem eru báðir á mála hjá Barcelona. Finnarnir verða svo síðasti leikurinn í riðlinum og okkar hlakkar mikið til að fá að takast á við þá aftur eftir hrakfarir okkar í úrslitaleiknum gegn þeim í maí.
 
Hvernig er dagskráin í stuttu máli hjá ykkur fram að brottför?
Við erum að æfa um helgina og á mánudag, og leikum svo gegn Fjölni í Dalhúsum á þriðjudaginn klukkan 18:30. Við lékum gegn Haukum á miðvikudag og fengum flottan leik þar og þessir leikir hjálpa okkur að fá betri mynd á það sem við þurfum að vinna betur með. Við tökum svo síðustu æfingatörn um verslunarmannahelgina og förum út á þriðjudagskvöldinu eftir verslunarmannahelgina.
 
Fyrsti leikur Íslands er gegn Sviss þann 9. ágúst. Hér má sjá allt leikjaplanið.
 
U18 ára lið karla
Dagur Kár Jónsson · Stjarnan, 186 cm · bakvörður · 14 landsleikir
Elvar Már Friðriksson · Njarðvík, 182 cm · bakvörður · 14 landsleikir
Emil Karel Einarsson · Þór Þorlákshöfn, 197 cm · framherji · 28 landsleikir
Hugi Hólm Guðbjörnsson · KR, 196 cm · framherji · 14 landsleikir
Jens Valgeir Óskarsson · 206 cm, Njarðvík · miðherji · 19 landsleikir
Maciej Stanislav Baginski · Njarðvík, 192 cm · bakvörður · 32 landsleikir
Martin Hermannsson · KR, 191 cm · bakvörður · 27 landsleikir
Matthías Orri Sigurðsson · KR/Flagler University, 186 cm · bakvörður · 18 landsleikir
Stefán Karel Torfason · Þór Ak, 201 cm · miðherji · 19 landsleikir
Svavar Ingi Stefánsson · FSu, 204 cm · framherji · 10 landsleikir
Valur Orri Valsson · Keflavík, 182 cm · bakvörður · 28 landsleikir
Þorgrímur Kári Emilsson · ÍR, 207 cm · miðherji · 8 landsleikir

Einar Árni Jóhannsson · Þjálfari
Arnar Guðjónsson · Aðstoðarþjálfari
Örvar Þór Kristjánsson · Aðstoðarþjálfari
Rafn Júlíusson · Nuddari
 
Mynd/ Emil Karel Einarsson, Þór Þorlákshöfn, er fyrirliði U18 ára landsliðs Íslands.
 
nonni@karfan.is