Bandaríkin unnu Dóminíska lýðveldið í gær 113-59 en leikið var í Las Vegas í Bandaríkjunum. Er þetta fyrsti æfingaleikur bandaríska liðsins en þeir leika næst gegn Braslíu þann 18. júlí í Washington. Í heildina leika Bandaríkin sex æfingaleiki í undirbúningi sínum fyrir London og eiga þeir eftir að mæta Brasilíu, Bretlandi tvisvar sinnum og svo Argentínu og Spáni.
Eins og lokatölur gefa til kynna var sigur þeirra bandarísku auðveldur en stigahæstur hjá þeim var Kevin Durant með 24 stig en hann tók einnig 10 fráköst. Stigahæstur hjá Dóminíska lýðveldinu var Elipidio Fortuna með 10 stig.
 
Antonio Davis, nýliðinn sem New Orleans, valdi með fyrsta valréttinum í nýliðavalinu á dögunum kom inn í liðið í stað Blake Griffins. Griffin leikur ekki með liðinu á Ólympíuleikunum þar sem hann meiddist á dögunum og þarf að fara í uppskurð á vinstra hné.
 
Ekki er búið að tilkynna að Davis komi í stað Griffins á ÓL þó hann hafi komið í stað hans í þessum leik. Þó er talið að hann muni fara til London með bandaríska liðinu.
 
Talið er að Griffin nái sér af meiðslunum áður en undirbúningstímabilið hefst hjá L.A. Clippers en hann var að skrifa undir nýjan fimm ára samning við L.A. Clippers fyrir nokkrum dögum.
 
 
Mynd: Blake Griffin verður ekki með troðslusýningu í London í næsta mánuði.

emil@karfan.is