Stórlið Bandaríkjanna hefur unnið sinn fyrsta leik á Ólympíuleikunum í London en þeir voru rétt í þessu að skella Frakklandi 98-71. Frakkar þvældust fyrir stjörnumprýddu liði Bandaríkjanna framan af en sátu svo eftir í reykjarmekki þegar Bandaríkin opnuðu annan leikhluta með 8-0 dembu.
Staðan í hálfleik var 52-36 Bandaríkjunum í vil þar sem Kevin Durant var líflegur á upphafsmínútunum og tvennutröllið Kevin Love kom svo sterkur inn. Tony Parker var í strangri gæslu hjá Bandaríkjamönnum og fann aldrei taktinn í dag. Um miðbik þriðja leikhluta var munurinn kominn yfir 20 stig, 64-43 og lokatölur eins og áður segir reyndust 98-71 fyrir Bandaríkjamönnum og fátt ef nokkuð sem virðist geta stöðvað þetta ofurlið á leið sinni að Ólympíugullinu.
 
Kevin Durant gerði 22 stig fyrir Bandaríkin og Kevin Love bætti við 14 stigum. Hjá Frökkum var Ali Traore leikmaður BC Lokomotiv í Rússlandi sem var stigahæstur með 12 stig og Tony Parker gerði 10.
 
nonni@karfan.is