Axel Kárason var í 12 manna hópnum sem valinn hefur verið til að spila tvo leiki í Litháen á næstu dögum. Axel gerði víðreist í dönsku úrvalsdeildinni með Værlöse á síðasta tímabili og er nú kominn í A-landsliðið. Námið og körfuboltinn hafa togað og skipst á því að hafa vinninginn en Axel sagði í kvöld í samtali við Karfan.is að hann hefði farið að æfa meira og betur í Danmörku og afraksturinn lætur ekki á sér standa.
,,Jú eigum við ekki að segja það," svaraði Axel aðspurður hvort frammistaða hans í Danmörku í vetur hefði ekki verið að tryggja honum sæti í A-landsliðinu. ,,Maður er reyndar ekki vanur því að æfa á miðju sumri með 14-15 öðrum sem eru af svona góðu kalliberi. Þetta lítur vel út," sagði Axel sem var ekki byrjaður að pakka í töskurnar þegar við náðum tali af honum en íslenski hópurinn heldur utan á morgun.
 
,,Það hljómar mjög Pro að mæta Litháen. Það er búist við rúmlega 8000 manns á leikinn enda er þetta þjóðaríþrótt Litháa. Maður fær bara smá gæsahús við að heyra svona lagað. Ég vinn með mörgum frá Litháen og um leið og þeir fréttu að ég væri mögulega á leiðinni út þá urðu þeir alveg sjúkir. Þeir eru sjúkir í körfubolta og þeir munu taka sér frí í vinnu á meðan Litháen er að spila á Ólympíuleikunum. Maður reynir að setja þetta í samhengi og í þessu samhengi verður verkefnið mjög spennandi," sagði Axel sem hefur reynt að hætta í körfubolta en bakterían…
 
,,Ég gerði heiðarlega en lélega tilraun til að hætta þegar ég fór í nám til Ungverjalands og það gekk alveg ágætlega en gamli fiðringurinn kom aftur. Maður var einfaldlega of ungur til að hætta svo ég fór heim einn vetur til að koma mér í gang og eftir það var ég svo kominn til Danmerkur," sagði Axel sem hefur síðustu tvö tímabil leikið með úrvalsdeildarliði Værlöse.
 
,,Síðasta tímabil gekk mjög vel en það fyrra þar á undan var slitrótt þar sem ég var enn að klára nokkra hluti í Ungverjalandi. Í Danmörku fór ég að æfa meira og betur en það var margt annað sem spilaði líka inní þetta. Ég passaði vel inn í liðið og boltinn í Danmörku hentar mér greinilega vel," sagði Axel sem var byrjunarliðsmaður hjá Værlöse og oftar en ekki þeirra fremsti maður í flokki. Aðspurður um gengið á landsliðsæfingunum í sumar svaraði Axel:
 
,,Maður sér miklar framfarir og hópurinn er að verða samhæfðari. Margir þarna hafa spilað saman til fjölda ára og mér finnst þetta líta mjög vel út. Það eru komin sex ár síðan ég var í þessu síðast og nú finnst mér þetta töluvert sterkara," sagði Axel en telur hann að íslenska liðið eigi roð í Litháa?
 
,,Einn vinnufélaginn minn sem er frá Litháen hann glotti að mér um daginn og spurði hvort við teldum að Ísland ætti einhvern séns. En maður viðurkennir auðvitað að flestir veðji á Litháen en verður maður ekki alltaf að vera brattur? Ef maður er ekki brattur þá er nú ekki mikið eftir!"
 
Mynd/ tomasz@karfan.is – Axel Kárason er brattur.
 
nonni@karfan.is