U16 ára landslið Íslands mætir heimakonum í Gíbraltar í dag í undanúrslitum C-deildar Evrópukeppninnar. Ísland vann alla þrjá leiki sína í A-riðli og fékk því Gíbraltar á þessu stigi mótsins en heimakonur höfnuðu í 2. sæti í B-riðli. Tvíburasysturnar Bríet og Sara eru spenntar fyrir viðureign kvöldsins sem hefst kl. 17:00 að íslenskum tíma og segja þær Gíbraltar hafa góða stuðningsmenn á bak við sig.
Hvernig finnst ykkur mótið hafa verið til þessa?
Rosalega gaman, góð upplifun og öðruvísi en önnur mót sem við höfum farið á.
 
Hvernig er stemmarinn fyrir leikinn gegn heimamönnum?
Við erum rosalega spenntar fyrir leiknum vegna þess að heimamenn eru með svo flotta áhorfendur og þvílík læti, eina slæma er að við fáum engan stuðning en Gíbraltar með fulla höll á bak við sig.
 
Eitthvað að lokum?
Við hvetjum Íslendinga til þess að fylgjast vel með því við ætlum að gera okkar allra besta.
 
 
Við náðum einnig að grípa stutt í Tómas Holton þjálfara liðsins sem sagðist ætla að njóta þessara tveggja síðustu daga með liðinu.
 
Hvernig finnst þér þetta hafa gengið til þessa?
Það gekk vel að fljúga tvö flug, gekk illa í rútunni frá Malaga til Gíbraltar, gekk illa að ferðast með strætó í Gíbraltar og gengur vel í leikjunum.
 
Hvernig er stemmningin fyrir undanúrslitin?
Ég held að laugardagurinn, í dag, verði besti dagurinn til þessa. Við sveltum leikmenn frá körfubolta í gær. Við sáum bara grjót og apa í gær, þannig að það verður gríðarlegur léttir fyrir stelpurnar að komast á völlinn aftur, þetta verður bara frábært.
 
Eitthvað að lokum?
Þessi hópur er búinn að vera saman með hléum síðan í desember og ég ætla að muna að njóta síðustu tveggja daganna með þessum skemmtilega hóp.
 
Mynd/ FIBA Europe: Sara Rún á ferðinni í Gíbraltar.