Íslenska U18 ára lið karla mætir nú Norðmönnum í sínum þriðja leik á NM yngri landsliða í Solna. Íslenska liðið hefur unnið tvo fyrstu leiki sína á mótinu og með sigri á Norðmönnum í dag tryggja þeir sér sæti í úrslitaleik mótsins! Á heimasíðu KKÍ.is má nálgast tölfræðilýsingu frá leiknum en hér að neðan fer bein textalýsing frá leiknum.
 
U18 kk Ísland-Noregur: Textalýsing
 
 
– Besti maður leiksins: Hugi Hólm með 9 stig, 6 fráköst og eina stoðsendingu. Margir gerðu tilkall í þessa nafnbót í leiknum en Hugi kom grimmur af bekknum og stóð sig einnig glimrandi vel í öllum þeim þáttum sem tölfræðiblöðin kunna ekki að skrá.
 
– Skotnýting Íslands í leiknum:
Tveggja 45,8%, þriggja 30% og víti 66,7%
 
– Stigahæstu leikmenn Íslands:
Martin Hermannsson 13 stig, 7 fráköst og 4 stoðsendingar
Valur Orri Valsson 10 stig, 9 stoðsendingar og 7 fráköst
Svavar Ingi Stefánsson 10 stig, 2 fráköst
Hugi Hólm 9 stig og 6 fráköst
Elvar Már Friðriksson 9 stig, 6 fráköst, 3 stoðsendingar
____________________________________________________________________________________________
– Leik lokið, 83-42 og fjórða flautukarfan… Svavar Ingi aftur að verki og þristur í þetta sinn. Mögnuð innkoma hjá stóra manninum. Strákarnir berjast um gullið á sunnudag!
 
– Íslensku bakverðirnir hafa fengið samkeppni í þriggja stiga skotunum! Svavar Ingi var að setja annan þrist og fá villu að auki! Auðvitað setti hann vítið og kom Íslandi í 77-42!
 
– Tæpar tvær mínútur eru til leiksloka og nokkuð síðan íslenskur sigur varð að staðreynd og því ljóst að strákarnir munu leika um gullið á sunnudag sama hvernig Finnaleikurinn á morgun fer!
 
– Já já það er allt að ganga upp, hinn stóri og stæðilegi Svavar Ingi Stefánsson var að henda niður þrist og koma Íslandi í 71-40 og strax í næstu sókn Norðmanna lentu þeir á Stefáni Karel sem varði skot nánast út úr húsinu!
 
– Íslenska dýnamítið, Sigurður Dagur Sturluson er mættur á parketið og það tók kappann ekki langan tíma að vinna boltann, bruna upp, skora og fá villu að auki. 3.52mín eftir af leiknum og staðan 67-37 fyrir Ísland og Norðmenn taka leikhlé en að því loknu mætir Dagur á vítalínuna.
 
– 5.30mín eftir af leiknum: 61-35, Martin Hermannsson að setja þrist fyrir Ísland.
 
– 58-35… Norðmenn gera sín fyrstu stig eftir fjórar mínútur í fjórða.
 
– 7.00mín eftir af leiknum: 54-33 fyrir Ísland og Norðmenn ekki búnir að skora fyrstu þrjár mínútur leikhlutans.Íslenska vörnin er í fantaformi, svæðisvörn mestallan leikinn.
 
– Fjórði leikhluti er hafinn og ætla strákarnir að halda áfram að spila jafn flotta vörn? Halda Noregi í 13 stigum í fyrsta leikhluta, 10 stigum í öðrum og 10 í þriðja.
 
Stefán Karel Torfason átti góðar rispur í þriðja leikhluta
___________________________________________________________________________________________
– Þriðja leikhluta lokið: 52-33, Martin Hermannsson með flautukörfu fyrir Ísland, stökkskot í teignum og nú hefur íslenska liðið sett niður flautukörfu alla þrjá leikhlutana. Martin er stigahæstur með 10 stig og 6 fráköst.
 
– 49-31 og 1.06 mín eftir… Hugi Hólm kann vel við sig hér í Solnahallen í dag og hefur ekki stigið feilspor. 
 
– 45-31… Hugi Hólm með stoðsendingu á Maciej sem skellti niður þrist.
 
– 3.14mín eftir af þriðja: 42-30 fyrir Ísland, Stefán Karel setti tvö víti og fór svo af velli fyrir Jens Valgeir. Fínn leikhluti hjá Stefáni sem vantaði smá heppni við körfuna en var að fá boltann mikið og taka menn á, það var hressandi að sjá.
 
– 40-27 Stockmann að troða fyrir Norðmenn og það lifnar aðeins yfir þeim norsku, 3.50mín eftir af þriðja.
 
– 39-25… íslenska vörnin er ólseig og Norðmenn aftur að skora sín fyrstu stig eftir fjóra og hálfa mínútu rétt eins og öðrum leikhluta.
 
– Stefán Karel Torfason er litríkur hér á fyrstu mínútum síðari hálfleiks, góð barátta í norðlenska miðherjanum og strákarnir eru að finna hann í teignum.
 
– 39-23 og Norðmenn í stökustu vandræðum gegn íslensku svæðisvörninni.
 
– 1.15mín liðnar af þriðja leikhluta og Norðmenn taka leikhlé og ráða sínum ráðum.
 
– 37-23… Martin Hermannsson skorar fyrir Ísland eftir glæsilegt hraðaupphlaup og stoðsendingu frá Elvari Má.
 
– Jæja, þá er síðari hálfleikur að detta í gang og okkar menn hafa verið mun sterkari aðilinn hingað til. Jafnvel óhætt að segja að íslenska liðið hafi ekki alveg verið í fimmta gír fyrstu 20 mínútur leiksins. Sjáum hvað sá síðari hefur í för með sér.
 
Hugi Hólm átti flotta innkomu af bekknum í fyrri hálfleik og reif í sig fimm fráköst
___________________________________________________________________________________________
– Stigahæstu leikmenn Íslands í hálfleik:
Valur Orri Valsson 8 stig, 2 fráköst og 3 stoðsendingar
Emil Karel Einarsson 7 stig
Martin Hermannsson 6 stig og 4 fráköst
Elvar Már Friðriksson 6 stig og 2 fráköst
 
– Skotnýting Íslands í hálfleik:
Tveggja 38,4%, þriggja 27,2% og víti 60%
 
– Hálfleikur: 35-23… Elvar Már með flautukörfu fyrir Ísland! Erfið karfa og önnur flautukarfan, fyrst Valur Orri og nú Elvar sem skoraði í erfiðu færi. 
 
– 49 sek eftir af öðrum: 33-23, Elvar Már að setja tvö víti þar sem Ísland vann boltann af Norðmönnum sem brutu svo á okkur í hraðaupphlaupi.
 
– Norðmenn með 4-0 rispu og minnka muninn í 30-23. Sprækur leikmaður að nafni Blatancic sem fór hér í tvígang illa með íslensku vörnina.
 
– 3.30mín eftir af öðrum: 28-19 fyrir Ísland, Norðmenn að skella niður þrist yfir svæðið okkar.
 
– Íslenska liðið heldur sig við svæðisvörnina, staðan 28-15 eftir gegnumbrot hjá Val Orra.
 
– 26-15, tók Norðmenn fjóra og hálfa mínútu að skora sín fyrstu stig í öðrum leikhluta.
 
– 26-13, Martin að skora með stökkskoti og 5-0 byrjun Ísland á öðrum leikhluta. 
 
– Hugi Hólm er að koma sterkur inn af bekknum og berst vel í fráköstunum. 6.40mín eftir af öðrum.
 
– Með fyrsta leikhluta er Valur Orri búinn að gera fimm stig í röð, lokaði fyrsta með buzzer og var núna enda við að skella niður þrist og Ísland leiðir 24-13.
 
– Annar leikhluti er hafinn
 
Martin Hermannsson í baráttunni gegn Noregi
___________________________________________________________________________________________
– Fyrsta leikhluta lokið: 21-13 fyrir Ísland. Valur Orri Valsson gerði flautukörfu við endalínuna við erfiðar aðstæður. Fyrirliðinn Emil Karel er stigahæstur eftir fyrsta leikhluta með 7 stig og Maciej hefur gert 5 og tekið 3 fráköst.
 
– Einar Árni og Arnar búnir að nota níu leikmenn hér í fyrsta leikhluta, staðan 19-10 fyrir Ísland.
 
– 2.30mín eftir: 17-10 fyrir Ísland sem er á 7-0 skriði gegn Norðmönnum. Maciej hefur verið flottur og verið grimmur í fráköstunum.
 
– Okkar menn eru að þreifa fyrir sér í pressu og enda hana niðri í svæðisvörn, Norðmenn eru að leika box-1 á Martin núna svo bæði lið eru að stokka þetta upp prófa ýmsa hluti. Staðan 13-10 fyrir Ísland og 4.00mín eftir af fyrsta.
 
– Staðan er reyndar 10-10 eftir þristinn frá Maciej… smávægilegur ruglingur hér á stigatöflunni í Solnahallen en búið að kippa því í liðinn með bravör.
 
– 5.24mín eftir af fyrsta: 10-9 fyrir Ísland, Maciej var enda við að skella niður þriggja stiga körfu og Norðmenn taka leikhlé. Norðmenn eru með hávaxnara lið og stæðilegan miðherja að nafni Stockmann sem stíga þarf vel út.
 
– 7-7 Elvar Már jafnar með stökkskoti við endalínuna
 
– 6.30mín eftir af fyrsta: 5-7 fyrir Norðmenn sem voru að skella niður þrist. 
 
– Norðmenn mæta með svæðisvörn gegn íslenska liðinu á upphafsmínútunum, staðan 2-4 fyrir Norðmenn sem voru að setja tvö víti.
 
– Maciej Baginski gerir fyrstu stig Íslands í leiknum
 
– Leikur hafinn…
 
– Byrjunarlið Íslands:
Elvar Már Friðriksson, Martin Hermannsson, Maciej Baginski, Emil Karel Einarsson og Stefán Karel Torfason.