U18 ára karlalandslið Íslands leikur nú gegn Finnum til úrslita á Norðurlandamótinu í Svíþjóð. Liðin mættust í gær í lokaleik riðlakeppninnar þar sem Íslendingar höfðu betur en nú er komið að stóru stundinni. Íslenska liðið hefur vakið verðskuldaða athygli á mótinu með fyrnasterka vörn að vopni. Beina tölfræðilýsingu leiksins má nálgast á heimasíðu KKÍ, www.kki.is en við hér á Karfan.is verðum með beina textalýsingu frá leiknum.
 
U18 kk Ísland-Finnland úrslitaleikur: Bein textalýsing
___________________________________________________________________________________________
 
– Stigahæstu leikmenn Íslands í leiknum:
Martin Hermannsson 16 stig, 3 fráköst og 2 stoðsendingar
Maciej Baginski 16 stig, 2 fráköst og 4 stoðsendingar
Emil Karel Einarsson 13 stig 
Valur Orri Valsson 8 stig og 3 stoðsendingar
 
– Leik lokið: Lokatölur 64-105 fyrir Finnland sem fagna hér Norðurlandameistaratitli.
 
– 64-102 og 1.45mín til leiksloka. Finnar eru fyrir nokkru síðan orðnir Norðurlandameistarar í leik sem varð aldrei spennandi. 1994 árgangur Íslands er hér að tapa sínum fyrsta leik sem landslið! U18 ára lið Íslands leikur einnig á EM í sumar sem fram fer í Sarajevo en þar verða Finnar m.a. með okkur í riðli og kjörið tækifæri til að koma þar fram hefndum. 
 
– 60-96… Finnar að skella þrist, þeirra áttundi í leiknum og 4.00mín eftir.
 
– 5.30mín eftir af leiknum: 59-91… og hér hafa okkar menn verið nánast í hlutverki áhorfenda frá fyrstu mínútu. Við áttum aldrei séns gegn ákveðnum og einbeittum Finnum!
 
– Maciej Baginski að fá sína fimmtu villu og heldur af velli en hann hefur verið með fínar rispur hér í þriðja og í upphafi fjórða. Maciej klárar leikinn með 16 stig, 2 fráköst og 4 stoðsendingar.
 
– 7.19mín eftir af fjórða: 52-84 fyrir Finnland. 
 
Maciej Baginski
 
– Þriðja leikhluta lokið og staðan 46-79 fyrir Finna. Finnar unnu leikhlutann 17-29. Strákarnir frá þúsund vatna landinu byrjuðu þriðja leikhluta 1-20 en Ísland svaraði svo með 16-9 rispu.
 
– 46-79… og 26 sek eftir af þriðja
 
– 42-77… Maciej með annan íslenskan þrist og 1.29mín eftir af þriðja.
 
– 39-77… Maciej með íslenskan þrist
 
– 36-77 og 2.27mín eftir af þriðja
___________________________________________________________________________________________
– Fréttir af bronsleik U16 kvenna: Ísland tapaði fyrir Danmörku 56-62 í leik um bronsið. Stelpurnar hafna því í fjórða sæti. Sara Rún Hinriksdóttir var atkvæðamest í íslenska liðinu með 24 stig, 8 fráköst og 3 stoðsendingar.
___________________________________________________________________________________________
– 34-72 og 3.03mín eftir af þriðja og Finnar taka leikhlé
 
– Munurinn orðinn 40 stig! 30-70 fyrir Finna og 4.20mín eftir af þriðja leikhluta.
 
– Finnar byrja síðari hálfleik 1-12 og staðan 30-62 þegar 5.47mín eru eftir af þriðja leikhluta. 
 
– Munurinn orðinn 30 stig! Staðan 30-60 fyrir Finna og ef íslenska liðið var beygt eftir fyrri hálfleikinn þá er það við það að brotna endanlega núna. Vantar mun meiri grimmd í íslenska liðið. 
 
– 30-55 og 8.33mín eftir af þriðja... Finnar við sama heygarðshornið, láta höggin dynja á okkar mönnum og liggur við fagna þegar dæmdar eru villur á þá. Dýrslegar aðfarir hjá þeim og 25 stiga munur!
 
– Stefán Karel Torfason gerir fyrstu stig síðari hálfleiks af vítalínunni og staðan 30-50 fyrir Finnland.
 
Martin Hermannsson
 
– Síðari hálfleikur er að hefjast…
 
– Tapaðir boltar
Ísland 15
Finnland 9
 
– Fráköstin
Finnland 24
Ísland 12 
 
– Skotnýting Íslands í hálfleik:
Tveggja 44,4%, þriggja 12,5% og víti 83,3%
 
– Stigahæstu menn Íslands í hálfleik:
Martin Hermannsson 10 stig og 2 fráköst
Valur Orri Valsson 8 stig
Emil Karel Einarsson 7 stig
 
___________________________________________________________________________________________
– Hálfleikur: 29-50 fyrir Finnland í hálfleik. Íslenska liðið hefur verið tekið í bakaríið hér í fyrri hálfleik. Finnar hafa leikið afar stíft og okkar menn eru engan veginn að ráða við grimmdina í Finnum og láta ýta sér út úr öllum sínum aðgerðum.
 
– 29-48… Martin Hermannsson skellir niður þrist fyrir Ísland. Langþráður þessi!
 
– 26-47... og 1.50mín til hálfleiks.
 
– 24-46… Jens Valgeir skorar í teignum fyrir íslenska liðið.
 
– Maciej Baginski fær hér sína fjórðu villu, afar ósanngjörn villa og Ísland tapar boltanum þar með í fimmtánda sinn í fyrri hálfleik. Staðan 20-46 og 3.45mín til hálfleiks.
 
– 20-44 og 4.20mín til hálfleiks… Finnar hafa skorað 5-16 á Ísland í leikhlutanum til þessa.
 
– 5.13mín eftir af öðrum: Staðan 19-43 fyrir Finna sem eru miklu ákveðnari í öllum sínum aðgerðum. Íslenska liðið þarf að bíta betur frá sér enda Finnar ekki feimnir við að fá dæmdar á sig villu og leika afar fast.
 
– 17-41 og Maciej Baginski að fá sína þriðju villu í íslenska liðinu. 6.00mín til hálfleiks.
 
– 17-39… Finnar setja þrist og leysa svæðið vel hjá Íslandi, fá mikið af opnum og góðum skotum við endalínuna, galopna íslensku svæðisvörnina.
 
– 17-36… Martin Hermannsson gerir fyrstu stig Íslands í öðrum leikhluta með gegnumbroti.
 
– 7.42mín eftir af öðrum, 15-36, og Ísland enn ekki búið að skora í leikhlutanum. Okkar menn eiga erfitt gegn ákveðinni vörn Finna og Ísland hefur tapað boltanum 10 sinnum eftir næstum 13 mínútna leik.
 
– Annar leikhlutinn er hafinn og Finnar leiða 15-32, Ísland var rétt í þessu að fá dæmda á sig óíþróttamannslega villu. Finnar taka nú tvö víti og fá boltann aftur.
 
Valur Orri Valsson
___________________________________________________________________________________________
Þá er fyrsta leikhluta lokið og vonandi liggur leiðin upp á við. Varnarleikur íslenska liðsins hefur verið betri síðustu 3 mínúturnar í leikhlutanum og Finnarnir ekki fengið jafn greiða leið að körfunni og áður. Valur Orri hefur komið með ákveðnina af bekknum sem vantaði í upphafi leiks. Finnar leiða þó 15-28 og ljóst að róðurinn verður þungur.
 
Ísland fékk boltann þegar 25 sek voru eftir af leikhlutanum, Valur Orri sótti að vörninni og nældi sér í tvö víti sem auðvitað rötuðu rétta leið, staðan 15-28.
 
Frákastabaráttan er að reynast okkar mönnum erfið, Finnarnir hafa tekið 13 gegn aðeins 3 fráköstum Íslands, 6 þessara 13 frákasta eru undir körfu Íslands
 
Martin kemst á línuna og setur bæði, það telst því miður til tíðinda þegar Ísland skorar. Finnar láta ekki slá sig út af laginu og svara strax, 7-26 og 3:30 eftir
 
Finnar eru alsráðandi á vellinum og leið 5-23 þegar 3.59 eru eftir af fyrsta leikhluta. Strákarnir þurfa berja í sig smá stemmningu.
 
Jens Valgeir og Valur Orri eru komnir inná og þá fannst loksins leið í gegnum finnsku vörnina, 5-19
 
Ekkert gengur hjá strákunum þessar mínúturnar, stíf vörn Finna er að valda miklum vandræðum og töpuðu boltarnir hrannast upp. Einar Árni tekur leikhlé til að fara yfir málin þegar 6:09 eru eftir af leikhlutanum og Finnar leið 3-15
 
7:09 Finnar eru að spila mjög stífa vörn sem strákunum gengur illa að leysa þessa stundina, 3-8 Finnland
 
8:16 Finnar hafa verið sterkari og leiða 2-6. Ísland missti boltann útaf, en þegar Finnar voru að sækja boltann til innkasts var dæmd á þá óíþróttamannsleg villa, Emil Karel læddi niður öðru vítinu og Ísland fær boltann
 
9:57 Ísland nær uppkastinu og Emil Karel oppnar leikinn með sniðskoti
 
– Leikmenn beggja liða raða sér um miðjuhringinn, nú er þetta að hefjast gott fólk.
 
– Landsliðsþjálfari Íslands er mættur til að horfa á íslensku piltana etja kappi við þá finnsku.
 
– Nú eru 3 mínútur í leik!
 
– Úrslit U18 liðsins á mótinu í riðlakeppninni:
Ísland 71-64 Finnland
Ísland 83-42 Noregur
Ísland 87-76 Svíþjóð
Ísland 94-59 Danmörk
 
– Nokkura mínútna seinkun á leiknum þar sem það er mikið um að vera hér í Solnahallen. Öðrum úrslitaleik var að ljúka og hér var verið að afhenda verðlaun og fleira skemmtilegt svo það er ekki langt að bíða þess að úrslitaleikur okkar manna hefjist.
 
– Núna á sama tíma og úrslitaleikur U18 karla hefst þá leikur U16 ára lið kvenna til bronsverðlauna en leikurinn fer ekki fram í Solnahallen heldur í íþróttahúsi hér skammt frá. Þaðan verður ekki bein textalýsing þar sem ekkert þráðlaust net er í boði þar. Umfjöllun um bronsleikinn kemur þó hér inn á Karfan.is síðar í dag.
 
– Stelpurnar í U18 ára landsliði Íslands eru mættar í Solnahallen til að hvetja jafnaldra sína í karlaliðinu til dáða. Ef vel er að gáð má sjá uppi í vinstra horni glitta í sjálfan Hermann Hauksson fyrrum leikmann KR og UMFN og faðir Martins leikmanns U18 ára liðsins.
 
– Strákarnir sátu video-fund í morgun og hlýddu á Arnar Guðjónsson aðstoðarþjálfara liðsins fara í gegnum skipulag dagsins. Okkar menn verða að vera á tánum sem fyrr þegar kemur að fráköstum enda Finnar með stóra og sterka stráka.
 
– Um 15mín í leik og hér kemur byrjunarlið Íslands. Sama byrjunarlið allt mótið og ætla þjálfararnir þeir Einar og Arnar ekkert að breyta neitt út af vananum:
Elvar Már Friðriksson, Martin Hermannsson, Maciej Baginski, Emil Karel Einarsson og Stefán Karel Torfason.