U18 ára kvennalandslið Íslands leikur nú gegn Finnum í fyrsta leiknum á NM yngri landsliða sem fram fer í Solnahallen í Svíþjóð. Hér að neðan fer bein textalýsing frá leiknum en við bendum einnig á að lifandi tölfræði leikjanna má finna á www.kki.is.  
 
Textalýsing: Ísland-Finnland
Nettengin hér í Solnahallen fór á eitthvað flakk í fyrri hálfleik… við rituðum samt leiklýsinguna sem má finna hér að neðan. Vonum að netið hagi sér vel hér í síðari hálfleik.
__________________________________________________________________________________________

– Tölfræði leiksins

– Myndasafn úr leiknum eftir Tomasz Kolodziejski

– Stigahæstu leikmenn Íslands:
Hildur Björg Kjartansdóttir 17 stig og 11 fráköst
Marín Laufey Davíðsdóttir 12 stig og 4 fráköst
Margrét Rósa Hálfdánardóttir 10 stig, 4 fráköst, 3 stoðsendingar
Hallveig Jónsdóttir 9 stig, 4 fráköst og 3 stoðsendingar

Samantekt KKÍ á leiknum

– Maður leiksins: Hildur Björg Kjartansdóttir með 17 stig, 11 fráköst, 2 stoðsendingar og 2 stolna bolta.
– Þá fær Lovísa Falsdóttir prik fyrir góða baráttu.

– Ísland gaf Finnum þrjá góða leikhluta en Finnar reyndust mun sterkari á lokasprettinum.

– Leik lokið: Lokatölur 54-76 fyrir Finna. Þær finnsku unnu fjórða leikhluta 27-9. 

– 1.30mín eftir af leiknum: 54-73 og Finnar eru að rúlla upp fjórða leikhluta. 

– 3.40mín eftir af leiknum: 52-64 fyrir Finnland og fátt sem bendir til þess því miður að íslenska liðið eigi nægilegt bensín á tanknum til að jafna leikinn að nýju.

– Við skulum bara segja það án allra umbúða, dómgæslan hérna er grín! Síðari hálfleikur er afar illa dæmdur en það þarf víst að harka það af sér líka.

– Hallveig Jónsdóttir var að troða síðustu færslu ofan í kokið á okkur með þrist og minnkaði muninn í 52-59 þegar fimm og hálf mínúta er til leiksloka. 

– 6.00mín eftir af fjórða: 49-57 fyrir Finnland. Ísland er 1 af 11 í þristum í leiknum. 

– 7.13mín eftir af fjórða: 49-55 fyrir Finnland. 

– 49-49 Hildur Björg jafnar er hún kemst inn í sendingu, brunar upp og leggur boltann snyrtilega í körfuna.

– Fjórði leikhluti er hafinn og Ísland þegar búið að minnka muninn í 47-49 en nokkrir dómar eru að falla gegn okkur. Stelpurnar hrista það af sér eins og endur vatn.

_________________________________________________________________________________________
– Þriðja leikhluta lokið:
Staðan er 45-49 fyrir Finna sem unnu síðustu tvær mínúturnar 2-7. Fjórði leikhluti framundan, spennandi lokasprettur.

– 2.00mín eftir af þriðja: Staðan enn 43-42 fyrir Ísland og hart er barist en liðunum gengur lítið að skora um þessar mundir.

– 3.34mín eftir af þriðja: 43-42 fyrir Ísland og Jón Halldór tekur leikhlé. Íslenska liðið búið að grýta boltanum frá sér í tvígang og þjálfarinn fjarri því sáttur við að farið sé svo óvarlega með boltann.

– 4.21mín eftir af þriðja: 41-39 fyrir Ísland. Íslenska liðið reynir nú fyrir sér í svæðisvörn, viðleitni til þess að loka teignum betur. 

– 5.37mín eftir af þriðja: 41-35 fyrir Ísland. Hildur Björg Kjartansdóttir með fjögur stig í röð fyrir íslenska liðið og Finnar taka leikhlé. Hildur Björg og Hallveig hafa farið fyrir íslenska liðinu í sókninni hér á upphafsmínútum síðari hálfleik.

– Finnar jafna 33-33 með þriggja stiga körfu. Finnum gengur umtalsvert betur með þristana sína í dag heldur en íslenska liðinu.

– 8.00mín eftir af þriðja: 31-30 fyrir Ísland.

– Síðari hálfleikur er hafinn!

___________________________________________________________________________________________
– Fráköstin í fyrri hálfleik
: Ísland 29-26 Finnland

– Skotnýting Íslands í fyrri hálfleik:
Tveggja 31,2%, þriggja 12,5% og víti 85,7%

– Marín Laufey Davíðsdóttir er með 10 stig og 3 fráköst í íslenska liðinu í hálfleik. Næst er Margrét Rósa Hálfdánardóttir með 8 stig og 4 fráköst og Hildur Björg Kjartansdóttir er með 5 stig og 7 fráköst. Þá hefur Lovísa Falsdóttir átt sterka spretti í fyrri hálfleik og tekið að sér mörg þjóðþrifaverkin með góðri baráttu.

– Hálfleikur: Ísland leiðir 29-28 í hálfleik. Fyrri hálfleikur hefur verið nokkuð sveiflukenndur en það má ljóst vera að Finnar kunna því illa að láta keyra í bakið á sér. Íslenska liðið hefur þó verið að missa Finna inn í teiginn og þurfa að þétta teigvörnina í síðari hálfleik. 

– Síðustu mínútur hafa Finnar átt nokkuð greiða leið inn í íslenska teiginn og ljóst að stelpurnar þurfa að þétta vörnina nær körfunni. 

– 1.45mín til hálfleik og staðan 29-28 fyrir Ísland.

– Finnar jafna 25-25 og nokkur harka er komin í leikinn og ljóst að stelpurnar frá þúsundvatna landinu eru orðnar nokkuð pirraðar. 

– Marín Laufey kemur Íslandi í 25-20 með þriggja stiga körfu.

– Finnar jafna 18-18 með 8-0 áhlaupi.

– Marín Laufey Davíðsdóttir gerir fyrstu stig leikhlutans, kemur Íslandi í 18-10 með sóknarfrákasti, skorar í teignum og fékk villu að auki. Að sjálfsögðu setti hún vítið niður.

– Annar leikhluti er hafinn.
___________________________________________________________________________________________

– Ísland 15-10 Finnland – Staðan eftir fyrsta leikhluta. Ísland vann frákastabaráttuna 17-11 í fyrsta leikhluta en Finnar bitu frá sér á lokasprettinum.

– Ísland 15-8 Finnland

– Ísland 13-3 Finnland

– 6.40mín eftir af fyrsta: 8-1 fyrir Ísland sem eru að keyra upp hraðann í leiknum! Finnar taka leikhlé. Sex stig í röð hjá Íslandi með því að keyra í bakið á Finnum og sækja ákveðið inn í teiginn. Óskabyrjun hjá okkar dömum.
 
– Finnar brenna af fyrstu sex teigskotunum sínum í leiknum og eru ekki að finna fjölina. Staðan er 2-1 fyrir Ísland þar sem Finnar voru að setja niður eitt víti. 
 
– 8.20mín eftir af fyrsta: Lovísa Falsdóttir gerir fyrstu stig leiksins úr stökkskoti eftir sóknarfrákast hjá Hildi Björgu Kjartansdóttur. 
 
– Liðunum gengur illa að finna körfuna hér á upphafsmínútunum og eftir eina og hálfa mínútu er enn ekki búið að skora en Finnar mæta með sterka maður á mann vörn hér strax á upphafsmínútunum.
 
– Byrjunarlið Íslands í leiknum:
Lovísa Falsdóttir, Margrét Rósa Hálfdánardóttir, Hallveig Jónsdóttir, Marín Laufey Davíðsdóttir og Hildur Björg Kjartansdóttir.
 
– Leikur hafinn
 
___________________________________________________________________________________________
– Stefán Þór Borgþórsson mótastjóri KKÍ er hér með okkur og segir hann leikinn framundan verða erfiðan fyrir íslensku stelpurnar enda Finnar með hávaxið og reynslumikið lið.
 
– Nú eru um 10 mínútur í leik og íslenska liðið er að hita upp en þær mæta stöllum sínum frá Finnlandi í fyrsta leik. 
 
Hildur Björg Kjartansdóttir í frákastabaráttunni gegn Finnum. 
Marín Laufey Davíðsdóttir í frákastabaráttunni gegn Finnum