Snorri Örn Arnaldsson er við stýrið hjá U16 ára landsliði Íslands sem í næstu viku heldur til Svíþjóðar á NM U16 og U18 ára landsliða. Snorri Örn býst við því að vera með langminnsta liðið ytra en að liðið búi yfir hæfileikum sem nýta megi gegn hávaxnari liðum.
Hvaða vonir hafið þið til mótsins?
Draumurinn er alltaf að komast í úrslitaleikinn, því ef það tekst þá er allt hægt. Miðað við það sem við vitum þá teljum við okkur betri en bæði Dani og Norðmenn þó báðar þjóðir séu með mun hávaxnara lið en við. Aftur á móti vitum við mjög lítið um Svía og Finna, en sagan segir okkur þó að þau séu með sterk lið.
 
Hvernig hafa æfingar gengið?
Æfingar hafa gengið mjög vel. Undirbúningurinn er knappur, þar sem við náum einhverjum 14 æfingum á 12 dögum, en strákarnir hafa verið virkilega duglegir að æfa og tekið vel öllum leiðbeiningum frá okkur þjálfurunum. Það er líka gaman að sjá liðsheildina koma saman, strákarnir ná virkilega vel saman í hóp og hafa sýnt að þeir eru tilbúnir að berjast til síðasta blóðdropa fyrir land og þjóð.
 
Við hverju búist þið ytra?
Við búumst einfaldlega við því að vera með langminnsta liðið, en að sama skapi vitum við að við búum yfir ákveðnum styrkleikum sem við eigum að geta nýtt okkur gegn hæðinni. Hversu vel það heppnast verður svo að koma í ljós þegar út í alvöruna er komið.
 
Hvernig ætlið þið að leggja upp dæmið?
Við ætlum að spila hratt, við viljum keyra upp hraðann og reyna að opna völlinn með því að pressa andstæðingana og koma boltanum eins hratt fram í sókn og mögulegt er, en við höfum einmitt æft með þetta í huga. Okkar styrkleikar liggja í hraðanum, þar sem bæði bakverðirnir okkar og stóru menn eru fljótir og góðir íþróttamenn.
 
Leikir U16 ára landsliðs karla á NM 2012:
 
Fimmtudagur 17. maí
Ísland-Noregur
 
Fimmtudagur 17. maí
Ísland-Finnland
 
Föstudagur 18. maí
Ísland-Svíþjóð
 
Laugardagur 19. maí
Ísland-Danmörk
 
Landsliðshópur Íslands – U16 karla
 
Atli Þórsson, Fjölnir · 194 cm · framherji
Daði Lár Jónsson · Stjarnan, 183 cm · bakvörður
Gunnar Ingi Harðarson · KR, 186 cm · bakvörður
Helgi Rúnar Björnsson · Stjarnan, 183 cm · bakvörður
Hilmir Kristjánsson · Grindavík, 192 cm · framherji
Hlynur Logi Víkingsson · Valur, 195 cm · miðvörður
Högni Fjalarsson · KR, 189 cm · bakvörður
Jón Axel Guðmundsson · Grindavík, 189 cm · bakvörður/framherji
Kári Jónsson · Haukar, 186 cm · bakvörður
Kristinn Pálsson · Njarðvík, 190 cm · framherji
Pétur Rúnar Birgisson · Tindastóll, 185 cm · bakvörður
Vilhjálmur Kári Jensson · KR, 195 cm · framherji/miðvörður
 
Þjálfari: Snorri Örn Arnaldsson