Kvennalandslið Íslands var rétt í þessu að skella Norðmönnum 82-55 á Norðurlandamótinu sem nú fer fram í Noregi. Helena Sverrisdóttir var atkvæðamest í íslenska liðinu með 20 stig, 9 fráköst og 6 stoðsendingar en tæp átta ár eru síðan Ísland vann síðast landsleik gegn Norðmönnum.
Ísland leiddi 37-31 í hálfleik þar sem Helena var komin með 10 stig, 4 fráköst og 4 stoðsendingar og þær María Ben Erlingsdóttir og Petrúnella Skúladóttir voru báðar með 8 stig.
 
Þriðji leikhluti var einstefna af hálfu íslenska liðsins sem skoraði 27 stig gegn 7 stigum Norðmanna. Magnaður leikhluti og eftirleikurinn því auðveldur, lokatölur 82-55. Frábær byrjun á landsliðsstarfinu eftir 999 daga bið.
 
Helena Sverrisdóttir var stigahæst með 20 stig, 9 fráköst og 6 stoðsendingar. Næst var Hildur Sigurðardóttir með 11 stig, 7 fráköst og 5 stoðsendingar og Pálína María Gunnlaugsdóttir gerði 9 stig.
 
 
Mynd/ Helena Sverrisdóttir leikmaður Good Angels í Slóvakíu fór fyrir íslenska liðinu í dag.
 
nonni@karfan.is