Tveir leikir fóru fram í NBA í gærnótt þar sem San Antonio sópaði Utah Jazz út úr úrslitakeppninni og Los Angeles Clippers vann þriðja sigurinn á Memphis eftir æsispennandi framlengingu.  
 

Það voru ekki margir sem töluðu um San Antonio sem raunhæfa keppinauta um NBA titilinn í vetur en eftir því sem leið á tímabilið fóru menn að sjá þann árangur sem Gregg Poppovich er að ná með San Antonio enn eitt árið.  San Antonio sópaði Utah Jazz út úr úrslitakeppninni í nótt með 6 stiga sigri, 87-81 og fá því nokkra hvíld fyrir næstu viðureign.  Margt hefur verið sagt um að lykilmenn í SA séu of gamlir og að liðið hafi ekki orkuna í úrslitakeppnina en ekkert hefur sést til þeirrar þreytu það sem af er.  Manu Ginobili var stigahæstur í SA með 17 stig í nótt en næstu menn voru Tim Duncan, Tony Parker og Gary Neal með 11 stig hvor.  Hjá Utah Jazz var Al Jefferson stigahæstur með 16 stig og 10 fráköst en aðrir sem lögðu sitt á vogarskálarnar voru Derrick Favors með 16 stig og 10 fráköst og Paul Millisap sem setti 10 stig og hirti heil 19 fráköst.  

 

Memphis Grizzlies eru nú komnir í þá erfiðu stöðu að hafa tapað þremur leikjum og Clippers eiga næsta leik á heimavelli til þess að klára einvígið.  Blake Griffin fór fyrir sínum mönnum í borg englanna og setti 30 stig áður en hann var flautaður út úr leiknum með 6 villur.  Griffin gaf einnig 7 stoðsendingar og hirti 6 fráköst.  CP3 bætti svo við 27 stigum, 7 fráköstum og 9 stoðsendingum.  Í liði Grizzlies var  Mike Conley stigahæstur með 25 stig og 8 stoðsendingar og 7 fráköst.  

 

Í kvöld leika svo Chicago og Philadelphia þar sem þeir síðarnefndu geta sent Chicago í óvænt sumarfrí með sigri.  Aðrir leikir kvöldsins eru Denver gegn Los Angeles Lakers, Orlando gegn Indiana og Boston mætir Atlanta. 

 

gisli@karfan.is