Gunnar Kr Sigurðsson formaður körfuknattleiksdeildar Stjörnunnar til fjölda ára lét af embætti á stjórnarfundi deildarinnar í vikunni. Gunnar tók við formennsku í deildinni árið 2002 og hefur því verið formaður í 10 ár. Þetta kemur fram á www.stjarnan-karfa.is
Á heimasíðu Garðbæinga segir ennfremur:
 
Á þessu 10 árum hefur hann leitt deildina frá því að vera hársbreidd frá því að vera lögð niður og til þess sem hún er í dag.  Í dag er Stjarnan með eitt besta lið landsins í karlaflokki og stefnt að því innan fárra ára að hafa kvennalið í sama gæðaflokki.  Auk þess er Stjarnan með flesta skráða iðkendur í yngri flokkunum á landinu, þannig að framtíðin er björt.
 
Á sama stjórnarfundi var skipuð ný stjórn sem hefur skipt með sér verkum.  Við formannsstarfinu tók Hilmar Júlíusson sem verið hefur í forsvari barna og unglingaráðs undanfarin ár.  Ármann Einarsson verður gjaldkeri en hann er nýr í stjórn, meðstjórnendur verða  Kristín Anna Ólafsdóttir, Anna Margrét Halldórsdóttir og Erlendur Cassata og kemur hann nýr inní stjórn. Formaður meistarflokksráðs karla er Eyjólfur Örn Jónsson og formaður meistaraflokksráðs kvenna er Guðrún Kolbeinsdóttir.
 
Það eru verðug verkefni sem bíða nýrrar stjórnar að halda áfram þeirri uppbyggingu sem átt hefur sér stað á undanförnum árum. Markmiðin fyrir næsta tímabil eru skýr, það er að toppa fyrri árangur í karlaliðinu og halda árfram uppbyggingu hjá stelpunum.  Og vonandi halda áfram að detta inn titlar hjá yngri flokkunum.
Gunnari eru þökkuð vel unnin störf og nýrri stjórn óskað góðs gengis.