Grindavík hampaði Íslandsmeistarabikarnum eftir æsispennandi leik í Þorlákshöfn í kvöld þar sem úrslitin réðust ekki fyrr en á lokasekúndum leiksins.  Það var J’Nathan Bullock sem var óumdeilanlega MVP úrslitakeppninnar en í kvöld splæsti hann í 36 stig og 8 fráköst.  J’Nathan var svellkaldur á vítalínunni á lokasekúndunum og var vel að titlinum kominn, mikilvægasti leikmaður úrslitakeppninnar.  Grindavík hefur beðið eftir þessum bikar í nokkurn tíman en þeir hömpuðu honum síðast fyrir 16 árum síðan.  
Guðmundur Jónsson lagði línuna strax í fyrstu sókn heimamanna og setti þrist við mikinn fögnuð græna drekans.  Grindavík svaraði með næstu 6 stigum leiksins og leiddu 3-6 eftir tvær mínútur af leik.  Þeir létu ekki þar við sitja heldur komust í 3-11 áður en Darren Govens náði að svara, 5-11.  Þórsarar voru þar með mættir til leiks því þegar leikhlutinn var rétt rúmlega hálfnaður minnkaði Govens muninn niður í 3 stig af línunni, 10-13.  Bæði lið voru í basli með að koma boltanum ofaní næstu mínúturnar og þegar ein og hálf mínúta var etir af fyrsta var forskot Grindavíkur 5 stig, 10-15.  Grétar Erlendsson náði sér þá á örstuttum tíma í tvær villur en hann hafði þá aðeins verið inná í rétt rúma mínútu.  J’Nathan Bullock jók forskot gestana í 8 stig með þrist áður en Darren Govens minnkaði þann mun aftur með sniðskoti og víti að auki, 15-20.  Þannig stóðu tölur eftir fyrsta leikhluta.  

Grétar Erlends var svo ekki lengi að næla sér í sína þriðju villu í upphafi annars leikhluta.  Grindvíkingar héldu þá forskoti sínu í 5 stigum fyrstu mínútur leikhlutans.  Heimamenn náðu góðu áhlaupi og jöfnuðu leikinn áður en leikhlutinn var hálfnaður, 22-22.  Þar fór Darren Govens fyrir sínum mönnum og setti 5 stig í röð.  Helgi Jónas, þjálfari Grindavíkur, tók svo leikhlé stuttu seinna í stöðunni 24-24 en Grindvíkingar voru þá búnir að fara illa með tækifæri sín nokkrar sóknir í röð.  Þór komst svo yfir í fyrsta skiptið síðan fyrstu stig leiksins voru skoruð í næstu sókn eftir leikhléið þegar Baldur Ragnarsson spændi framhjá vörninni eins og honum einum er lagið og lagði boltan laglega ofaní, 26-24.  Grindavík var þó ekki lengi að leiðrétta það og Ryan Pettinella sýndi okkur hvernig maður notar efri búkinn til þess að troða með látum, 26-27.  Liðin voru hnífjöfn það sem eftir lifði fyrri hálfleiks.  Það voru heimamenn sem fengu seinustu sókn fyrri hálfleiks og það var Blagoj Janev sem setti niður glæsilegan þrist og tryggði Þór þriggja stiga forskot inní hálfleikinn, 36-33.  

Stigahæstur í liði Þórs í hálfleik var Darren Govens með 19 stig en næstu menn voru Blagoj Janev með 8 stig og Joseph Henley með 4 stig.  Í liði Grindavíkur var J’Nathan Bullock stigahæstur í hálfleik með 16 stig og 6 fráköst en næstu menn voru Þorleifur Ólafsson með 5 stig og Ryan Pettinella með 4 stig.  

Merkileg tölfræði eftir fyrri hálfleik en gestirnirnir hirtu 22 fráköst gegn aðeins 10 fráköstum Þórs.  Það skilaði sér þó ekki í stigaskori hjá gestunum því þeir höfðu tapað 10 boltum í fyrri hálfleik, tölur sem menn sjá ekki oft hjá Grindavík.  

Það voru Grindvíkingar sem mættu mun öflugri til leiks í síðari hálfleik, þeir settu fyrstu 8 stigin áður en Þór gat svarað og Benedikt Guðmundsson tók þá leikhlé fyrir heimamenn, 33-41, og aðeins tvær mínútur liðnar af seinni hálfleik.  Þórsarar höfðu þá hent boltanum frá sér í tvígang og gefið gestunum ódýrar körfur af vítalínunni og úr hraðaupphlaupum.  Blagoj Janev fékk sína þriðju villu stuttu seinna og því tveir af stóru mönnum Þórs komnir með 3 villur.  Á hinum enda vallarins var Bullock að fara gjörsamlega á kostum, hann varði hvert skotið á fætur öðru og Þór þurfti svo sannarlega að hafa fyrir hlutunum.  Þorleifur Ólafsson náði forskoti gestana upp í 9 stig þegar fjórar mínútur voru liðnar af leikhlutanum, 38-47.  Þór tókst að minnka muninn aftur niður í 5 stig þegar um það bil þrjár mínútur voru eftir af þriðja leikhluta, 48-53.  Ryan Pettinella fékk sína fjórðu villu þegar tvær mínútur voru eftir af þriðja og Helgi Jónas var ekki lengi að setja hann á ís.  Forskot Grindavíkur var þá ennþá 5 stig, 50-55.  Grindavík skoraði þá fjögur stig í röð áður en Þór svaraði með seinustu stigum í þriðja leikhluta, 53-59.  

Joseph Henley opnaði fjórða leikhluta með svakalegri troðslu yfir Þorleif Ólafsson og minnkaði muninn niður í 4 stig, 55-59.  Liðin skiptust á að skora næstu mínútur og Guðmundur Benediktsson tók svo leikhlé fyrir Þór þegar þrjár mínútur voru liðnar, 58-62.  Þegar fjórði leikhluti var hálfnaður var forskot Grindvíkinga aftur komið upp í 7 stig, 60-67, en það mátti lítið útaf bera á báðum endum vallarins.  Darri Hilmarsson minnkaði það forskot niður í 4 stig þegar fjórar mínútur voru eftir, 63-67.  Blagoj Janev var svo næstur á svið, hirti sóknarfrákast og skilaði því ofaní, 65-67 og Helgi Jónas tók leikhlé fyrir Grindavík með þrjár mínútur og 14 sekúndur á klukkunni.  Darren Govens gerði gott betur og kom Þór yfir í næstu sókn eftir leikhléið með laglegum þrist, 68-67.  J’Nathan Bullock svaraði því strax í næstu sókn og lætin í húsinu voru orðin nánast óbærileg, 68-69, þegar 2:25 voru eftir af leiknum.  Sigurður Þorsteinsson jók þann mun í þrjú stig þegar ein og hálf mínúta var eftir, 68-71.  Joshep Henley setti þá sitt mark á leikinn en hann stal boltanum af Giordan Watson þegar ein mínúta var eftir, brunaði fram og var sendur á vítalínuna.  Þar minnkaði hann muninn niður í 1 stig, 70-71.  J’Nathan Bullock tók forskotið aftur fyrir Grindavík þegar 40 sekúndur voru eftir og Benedikt Guðmundsson tók leikhlé fyrir Þór.  Heimamenn fengu tvö tækifæri til þess að setja boltan ofaní í næstu sókn, Guðmundur Jónsson tók þrist sem klikkaði, Darren Govens setti sitt skot í spjaldið og beint í hendurnar á Grindavík.  Helgi Jónas tók svo leikhlé þegar 18 sekúndur voru eftir og munurinn á liðunum ennþá þrjú stig, 70-73.  Þórsarar sendu Bullock á línuna um leið og tækifæri gafst og það var ekki að spyrja að því, hann jók muninn í 5 stig, 70-75.  Henley tókst að minnka þann mun niður í 3 stig, 72-75 en nær komust heimamenn ekki.  Grindavík fékk fjögur víti á lokasekúndunum sem þeir nýttu þrjú af og sigurinn var í höfn, 72-78.  

Stigahæsti maður vallarins og jafnframt mikilvægasti leikmaður úrslitakeppninnar var eins og fyrr segir J’Nathan Bullock með 36 stig og 8 fráköst en næstir voru Sigurður Þorsteinsson með 12 stig og 9 fráköst og Þorleifur Ólafsson með 10 stig.  Í liði Þórs var Darren Govens stigahæstur með 26 stig en næstu menn voru Joseph Henley með 17 stig og Blagoj Janev með 10 stig og 7 fráköst.  

Karfan.is óskar Grindavík til hamingju með Íslandsmeistaratitilinn árið 2012!  

Gangur leiksins

15-20, 36-33.  53-59, 72-78

Umfjöllun: Gisli@karfan.is
Mynd: tomasz@karfan.is