Ísland vann sigur á Finnlandi 71-64 í dag í U18. Var þetta síðasti leikur riðlakeppninnar og úrslitaleikurinn er á morgun. Finnar verða andstæðingarnir einnig þá og því var leikur dagsins smá feluleikur.

Byrjunarliðið: Elvar Már Friðriksson, Martin Hermansson, Maciej Baginski, Emil Karel Einarsson og Stefán Karel Torfason.

Tölfræði leiksins

Samantekt um leikinn á KK.is

Það voru Íslendingar sem voru sterkari í upphafi leiks. Þeir keyrðu upp hraðann og lögðu mikla áherslu á að fá snöggar körfur. Martin Hermannsson og Stefán Karel Torfason fóru fyrir sóknarleiknum en þeir voru með fyrstu níu stig Íslands og komu nokkur þeirra eftir sóknarfráköst. Finnski þjálfarinn var allt annað en sáttur með spilamennsku hjá sínu liði og tók leikhlé eftir aðeins 1:38. Finnska liðinu gekk ekkert betur eftir það og íslensku strákarnir héldu áfram að herða tökin.

Valur Orri Valsson kom inná um miðjan leikhlutann og setti átta stig á skömmum tíma og íslenska liðið keyrði upp muninn og leiddu 25-14 að leikhlutanum loknum.

Einar og Arnar þjálfarar liðsins dreifðu álaginu og mínútnum á milli manna og með því náðu þeir að halda hraðanum í botni út hálfleikinn. Finnska liðið réð illa við hraðann leik þess íslenska og strákarnir sem voru að frákasta mjög vel(11 sóknarfráköst í fyrri hálfleik) uppskáru margar góðar körfur úr hraðaupphlaupum. Í hálfleik var staðan 49-29 og Martin Hermannsonn kominn með 14 stig og Stefán Karel Torfason 10 fráköst.

Sóknarleikur Íslands var ekki eins yfirvegaður í upphafi seinni hálfleiks og margir boltar töpuðust. Finnarnir refsuðu grimmilega og keyrðu muninn niður í 13 stig á skömmum tíma. Um miðjan leikhlutann var munurinn kominn í fimm stig. En íslenska náði góðum spretti og jók muninn í níu stig 58-49 þegar um tvær mínútur voru eftir af þriðja leikhluta. Ísland leiddi 63-52 við leikhlutaskiptin.

Liðin skiptust á körfum í lokaleikhlutanum. Ísland hafði þó ávallt forystuna og þeir leikmenn sem kláruðu leikinn gerðu það yfirvegað. Ísland leiddi leikinn allan tímann og Finnarnir komust aldrei yfir. Þegar byrjunarlið Íslands var inná var frákastabaráttan þeirra.

Finnarnir hvíldu lykilmenn alveg á meðan Ísland rúllaði á öllum en lykilmenn eins og Martin Hermannsson léku eingöngu í fyrri hálfleik.

Bæði lið voru greinilega komin með hugann að úrslitaleiknum og lögðu þennan leik upp með í huga. Fyrir vikið er erfitt að dæma til um hvar styrk- og veikleikar liðanna liggja þar sem þeir sýndu ekki allt sitt í dag.

Úrslitaleikurinn á morgun gegn Finnum hefst kl. 09.15 að íslenskum tíma.