Íslenska kvennalandsliðið hefur lokið keppni á Norðurlandamótinu í Noregi en rétt í þessu var spennuviðureign Íslands og Finnlands að ljúka. Finnar höfðu betur á lokasprettinum 80-83. Ísland fékk þriggja stiga skot í lokin til að koma leiknum í framlengingu en það geigaði.
Ísland átti sterka byrjun á leiknum og komst í 27-15 en staðan í hálfleik var 42-35. Finnar náðu svo að jafna metin 61-61 eftir þriðja leikhluta og unnu fjórða leikhluta 22-19 og leikinn 80-83. Tæpt var það en tveir sigrar og tveir tapleikir á Norðurlandamótinu í fyrsta verkefni landsliðsins í 999 daga! Ekki amaleg endurkoma hjá kvennalandsliðinu en árangurinn á mótinu, þ.e. bronsverðlaun er sá besti í sögunni.
 
Helena Sverrisdóttir átti enn einn stórleikinn mðe 28 stig, 9 fráköst og 6 stoðsendingar. María Ben Erlingsdóttir gerði 15 stig, Pálína Gunnlaugsdóttir var með 12 og Margrét Kara Sturludóttir skoraði 9.
 
Mynd/ KKÍ.is – María Ben Erlingsdóttir gerði 15 stig fyrir Ísland gegn Finnum.
 
nonni@karfan.is