Fyrr í dag fóru fram undanúrslit í Euroleague þar sem CSKA Moscow og Olympiacos unnu Panathinaikos og Barcelona um þáttökurétt í úrslitaleik mótsins sem fer fram á sunnudaginn.  Fjögurraliða úrslitin fara fram í Istanbúl í Tyrklandi í ár. 
Fyrri leikur dagsins var CSKA gegn Panathinaikos þar sem CSKA vann með svo gott sem minnsta mun, 66-64.  Panathinaikos hafði yfir eftir þrjá fjórðunga, 51-55 en CSKA steig upp á lokakaflanum og hélt andstæðingunum í aðeins 9 stigum í loka fjórðungnum.  Andrei Kirilenko fór fyrir sínu liði og skoraði 17 stig og hirti 9 fráköst í leiknum en Alexey Shved var næstur með 15 stig og 5 fráköst.  Hjá Panathinaikos var Sarunas Jasikevicius stigahæstur með 19 stig en næstir komu Mike Batiste með 11 stig og Dimitris Diamantidis með 10 stig.  Þar með eru meistararnir frá því í fyrra úr leik og því ljóst að það verður nýtt nafn á bikarnum í ár.

 

Í seinni undanúrslitaleik dagsins var það Olympiacos sem sigraði Barcelona með 4 stiga mun, 68-64. Olympiacos byrjaði leikinn í dag betur en Barcelona var aldrei langt undan og leikurinn var hnífjafn allan tíman. Vassilis Spanoulis var stigahæstur í liði Olympiacos með 21 stig og 6 stoðsendingar en næsti maður á blað var Georgios Printezis með 14 stig.  Hjá Barcelona reyndi Juan Carlos Navarro sitt besta til að tryggja sínu liði inní úrslitin með 18 stigum en næsti maður var með 10 stig og 5 fráköst, Boniface Ndong.