Í kvöld hefst rimman um Íslandsmeistaratitilinn í Iceland Express deild kvenna. Í ár eru það bikarmeistarar UMFN og Haukar sem berjast um titilinn og helmingslíkur eru því á því að nýtt nafn verði letrað á þann stóra en Njarðvíkingar hafa aldrei orðið Íslandsmeistarar í kvennakörfuknattleik. Haukar aftur á móti hafa þrisvar sinnum orðið Íslandsmeistarar. Fyrsti leikurinn fer fram í kvöld í Ljónagryfjunni í Njarðvík en grænar hafa heimaleikjaréttinn í seríunni.
Á leið sinni í úrslit þá höfðu Haukar betur gegn Keflavík er þær sópuðu ríkjandi Íslandsmeisturum í sumarfrí, 3-0. Njarðvík hafði 3-1 sigur í sinni rimmu gegn Snæfell en þessi eini sigur Snæfells var fyrsti sigur félagsins í úrslitakeppni kvenna!
 
Annað árið í röð leika Njarðvíkingar til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn en á síðustu leiktíð máttu grænar þola 3-0 ósigur gegn Keflavík. Haukar léku síðast til úrslita um þann stóra árið 2009 þegar þær unnu KR 3-2 eftir magnaðan oddaleik. Árin 2006, 2007 og 2009 léku Haukar til úrslita og unnu í öll skiptin og ólíkt Njarðvíkingum eiga Hafnfirðingar ekki silfur frá sinni reynslu í úrslitaseríu.
 
Ef Njarðvíkingar verða Íslandsmeistarar verður það annað árið í röð og í fimmta sinn síðan árið 1995 sem lið úr 2. sæti í deildarkeppninni verður Íslandsmeistari. Ef Haukar vinna titilinn verða þær meistarar úr 4. sæti en það hefur aðeins gerst einu sinni áður eða þegar Grindavík varð Íslandsmeistari árið 1997.
 
Hér er leikjadagskrá úrslitaseríunnar:
 
1. leikur Miðvikudaginn 4. apríl kl. 19.15 Njarðvík-Haukar
2. leikur Laugardaginn 7. apríl kl. 16.00 Haukar-Njarðvík
3. leikur Miðvikudaginn 11. apríl kl. 19.15 Njarðvík-Haukar
4. leikur Laugardaginn 14. apríl kl. 16.00 Haukar-Njarðvík EF ÞARF
5. leikur Þriðjudaginn 17. apríl kl. 19.15 Njarðvík-Haukar EF ÞARF