Undanúrslit í yngri flokkum fer fram í dag í ljónagrifjunni í Njarðvík.  Þar byrjaði fjörið klukkan 10 í morgun og síðasta leikur byrjar klukkan 19:00 í kvöld.  Eins og staðan er núna er fjórum leikjum lokið en leik Vals og Njarðvíkur og Keflavík og Grindavíkur í Stúlknaflokki er enn ólokið.
Í fyrsta leik dagsins mættust Grindavík og Haukar í 9. flokki stúlkna.  Það voru Grindavíkurstúlkur sem höfðu betur með 48 stigum gegn 43 stigum Hauka.  Ingibjörg Sigurðardóttir átti þar stórleik fyrir Grindavík en hún skoraði 34 stig, hirti 19 fráköst og gaf 3 stoðsendingar.  Það komust aðeins þrjár stúlkur á blað hjá Grindavík en það dugði þó til, Helga Guðrún Kristinsdóttir skoraði 8 stig og tók 14 fráköst og Elsa Katrín Eiríksdóttir skoraði 6 stig.  Í liði Hauka var Sylvía Rún Hálfdánardóttir stigahæst með 17 stig og 9 fráköst en næstar á blað voru Rósa Björk Pétursdóttir með 8 stig og 8 fráköst og Dýrfinna Arnardóttir með 5 stig og 4 fráköst.  

 

Í hinum undanúrslitaleik í 9. flokki stúlkna mættust Keflavík og Njarðvík en þar fór Keflavík með stórsigur af hólmi, 56-28.  Stigahæst í liði Keflavíkur var Katla Rún Garðarsdóttir með 13 stig en næstar voru Thelma Dís Ágústsdóttir með 12 stig og 6 fráköst og Elfa Falsdóttir með 9 stig.  Í liði Njarðvíkur var Svala Sigurðardóttir stigahæst með 12 stig og 9 fráköst en næstar voru Þuríður Birna Björnsdóttir með 9 stig og 10 fráköst og Júlía Scheving Steindórsdóttir með 6 stig.  

 

Það verða því Keflavík og Grindavík sem mætast í úrslitum í 9. flokki stúlkna á morgun.

 

í 10. flokki drengja mættust Grindavík og Njarðvík í öðrum undanúrslitaleiknum en þar hafði Njarðvík betur, 53-57.  Magnús Már Traustason átti stórkostlegan leik fyrir Njarðvík með 31 stig og 20 fráköst sem skilar honum 43 framlagsstig í leiknum.  Næstir á blað voru Ragnar Helgi Friðriksson með 13 stig og Kristinn Pálsson með 5 stig og 12 fráköst.  Í liði Grindavíkur átti Hinrik Guðbjartsson stórgóðan leik með 21 stig en næstir voru Jón Axel Guðmundsson og Hilmar Kristjánsson með 11 stig hvor.  

 

Í hinum undanúrslitaleik í 10. flokki drengja mættust Stjarnan og Haukar þar sem Haukar fóru með 11 stiga sigur, 69-58.  Stigahæstur í liði Hauka var Kári Jónsson með 19 stig og 8 fráköst en næstu menn voru Kristján Leifur Sverrisson með 15 stig og 7 fráköst og Ívar Barja með 13 stig.  í liði Stjörnunnar var Daði Lár Jónsson stigahæstur með 19 stig og 8 stoðsendingar en næstu menn voru helgi Rúnar Björnsson með 14 stig og 9 fráköst og Arnar Steinn Hansson með 11 stig.  

 

Það verða því Haukar og Njarðvík sem mætast í úrslitum í 10. flokki drengja.

 

gisli@karfan.is