Njarðvíkingar eru Íslandsmeistarar í Iceland Express deild kvenna eftir 3-1 sigur á Haukum í úrslitaeinvígi deildarinnar. Liðin mættust í dag í sínum fjórða leik í Schenkerhöllinni í Hafnarfirði þar sem grænar fóru með 62-76 sigur af hólmi. Lele Hardy var verðskuldað valin besti leikmaður úrslitakeppninnar en hún skoraði í dag 26 stig fyrir Njarðvík og tók 21 frákast! Hjá Haukum var Jence Ann Rhoads með 18 stig og 6 stoðsendingar en hún gerði einungis tvö stig í síðari hálfleik og má helst rekja það til öflugrar varnarvinnu Petrúnellu Skúladóttur.
Njarðvíkingar urðu einnig bikarmeistarar fyrr á tímabilinu eftir sigur gegn Snæfell í úrslitaleiknum sem þær síðar lögðu svo í undanúrslitum Íslandsmótsins áður en þær tóku Hauka 3-1. Mögnuð leiktíð að baki hjá Njarðvík, Íslands- og bikarmeistarar í fyrsta sinn. Til hamingju Njarðvíkingar!
 
Shanae Baker-Brice mætti í hlaupaskónum og gerði fjögur fyrstu stig Njarðvíkinga í leiknum þegar hún spólaði í tvígang framhjá Haukavörninni. Lele Hardy kórónaði svo góða byrjun gestanna með þrist og Njarðvík leiddi því 0-7 áður en Haukar komust á blað.
 
Þristunum rigndi á upphafsmínútunum, Jence splæsti í púkkið sem og Ólöf Helga fyrir grænar áður en hún hélt á tréverkið með tvær villur. Petrúnella Skúladóttir lét sitt heldur ekki eftir liggja við þriggja stiga línuna og gestirnir leiddu 16-26 að loknum fyrsta leikhluta þar sem Jence var með 9 stig í liði Hauka en Hardy 10 í Njarðvíkurliðinu.
 
Haukar ætluðu ekki að láta stinga sig af og gerðu níu fyrstu stig annars leikhluta en það voru þó Njarðvíkingar sem leiddu 38-39 í hálfleik. Þá var Hardy komin með 15 stig og 10 fráköst í Njarðvíkurliðinu en Jence Ann var komin með 16 stig og 3 stoðsendingar hjá Haukum.
 
Skotnýting liðanna í hálfleik:
Haukar: Tveggja 40%, þriggja 50% og víti 62,5%
Njarðvík: Tveggja 48%, þriggja 30,7% og víti 50%
 
Varnarleikur Njarðvíkinga var afbragðsgóður í síðari hálfleik, Haukar gerðu aðeins 24 stig í síðari hálfleik, 11 í þriðja og 13 í fjórða og Jence Ann skoraði aðeins tvö stig þessar tuttugu mínútur. Petrúnella Skúladóttir lokaði alfarið á Jence og Haukar áttu fyrir vikið bágt í sóknarleiknum því ekki var Jence ein um að erfiða, þegar Jenkins fékk boltann í teignum voru grænar oftar en ekki tvær eða þrjár á henni.
 
Staðan að loknum þriðja leikhluta var 49-56 Njarðvík í vil en Haukar minnkuðu muninn í 57-60 þegar um fimm mínútur voru til leiksloka. Njarðvíkingar áttu hinsvegar fimm síðustu mínúturnar og kláruðu leikinn af öryggi 62-76 og fögnuðu innilega um leið og þær sendu sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil á loft.
 
Vissulega var höggvið stórt skarð í lið Hauka fyrir seríuna með meiðslum þeirra Guðrúnar og Írisar og um tvo byrjunarliðsmenn að ræða hjá Hafnfirðingum. Eflaust er ekki til það lið sem myndi ráða við slíkan missi en rauðar gáfu Njarðvíkingum góða seríu og upp steig Margrét Rósa Hálfdánardóttir og það er fjarri því tekið of stórt upp í sig þegar við fullyrðum að Margrét Rósa hefur skipað sér á sess með fremstu leikmönnum þjóðarinnar.
 
Njarðvíkingar fengu inn tvo leikmenn eftir barnsburð, þær Petrúnellu og Ingibjörgu Elvu. Petrúnella hefur leikið frábærlega alla leiktíðina og Ingibjörg kom sterk inn á seinni stigum málsins. Þær tvær ásamt Ólöfu Helgu mynduðu hjartað og sálina í varnarleik Njarðvíkinga og hann fyrst og fremst er lykillinn að árangri grænna í vetur og ekki skemmdi nú fyrir að hafa þær Baker-Brice og Hardy í fimmta gír allt tímabilið, frábærir leikmenn þar á ferð.
 
 
Heildarskor leiksins
 
Haukar: Jence Ann Rhoads 18/6 stoðsendingar, Tierny Jenkins 13/21 fráköst, Margrét Rósa Hálfdanardóttir 13/6 fráköst/6 stoðsendingar, María Lind Sigurðardóttir 10/4 fráköst, Gunnhildur Gunnarsdóttir 7, Auður Íris Ólafsdóttir 1, Ína Salóme Sturludóttir 0, Inga Sif Sigfúsdóttir 0, Sara Pálmadóttir 0, Sólrún Inga Gísladóttir 0.
 
Njarðvík: Lele Hardy 26/21 fráköst, Shanae Baker-Brice 24/7 fráköst/5 stoðsendingar, Salbjörg Sævarsdóttir 8/6 fráköst, Ólöf Helga Pálsdóttir 7/6 stoðsendingar, Petrúnella Skúladóttir 6, Eyrún Líf Sigurðardóttir 3, Ingibjörg Elva Vilbergsdóttir 2, Erna Hákonardóttir 0, Sara Dögg Margeirsdóttir 0, Andrea Björt Ólafsdóttir 0, Harpa Hallgrímsdóttir 0, Ásdís Vala Freysdóttir 0.
 
Byrjunarliðin:
Haukar: Jence Ann Rhoads, Gunnhildur Gunnarsdóttir, Margrét Rósa Hálfdánardóttir, María Lind Sigurðardóttir, Tierny Jenkins.
Njarðvík: Shanae Baker-Brice, Petrúnella Skúladóttir, Ólöf Helga Pálsdóttir, Lele Hardy og Salbjörg Sævarsdóttir
 
Skotnýting liðanna í leiknum
Haukar: Tveggja 31,7%, þriggja 44,4% og víti 71,4%
Njarðvík: Tveggja 46,9%, þriggja 26% og víti 70,5%
 
Myndir og umfjöllun/ Jón Björn Ólafsson – nonni@karfan.is