Darrin Govens fór fyrir Þór sem í kvöld kjöldró KR í Icelandic Glacial Höllinni 94-76. Govens gerði 30 stig, tók 5 fráköst, gaf 5 stoðsendingar og stal 5 boltum í liði Þórs. Þar með er staðan jöfn, 1-1, í einvíginu. Skömmu fyrir leik barst nýliðunum liðsstyrkur í Joseph Henley sem fyllir skarð Hairston vegna meiðsla en Henley gerði 13 stig og tók 6 fráköst í leiknum og komst vel frá sínu ferskur út úr Fríhöfninni. KR-ingar þurfa ekki að örvænta, þeir hafa náð botninum í úrslitakeppninni ef þannig má að orði komast og því liggur leið þeirra bara uppá við eftir þetta.
Þór gerði fimm fyrstu stig leiksins áður en Finnur Atli tróð KR af stað en varnarleikur Þórsara gerði gestunum erfitt um vik og þeir brenndu m.a. af fyrstu fjórum vítum sínum í leiknum. Govens var heit höndin, fyrst þristur sem kom Þór í 19-9 og síðar 24-12 og þannig stóðu leikar eftir fyrsta leikhluta. Heimamenn 5 af 9 í þristum á fyrstu tíu mínútunum, ekki amalegt veganesti inn í restina af leiknum.
 
Martin Hermannsson átti fína innkomu í lið KR af bekknum en allt ætlaði um koll að keyra á upphafsmínútum annars leikhluta þegar Þórsarar komust í 35-16. KR svaraði með svæðisvörn og gekk hún þokkalega en staðan 49-33 í hálfleik þar sem Govens var kominn með 16 stig og Darri Hilmarsson 11 en Darri var stórgóður í kvöld. Hjá KR var Martin með 7 stig í hálfleik en aðrir lykilmenn gestanna voru gersamlega heillum horfnir.
 
Skotnýting liðanna í hálfleik:
Þór Þorlákshöfn: Tveggja 57,8%, þriggja 37,5% og víti 81,8%
KR: Tveggja 34,7%, þriggja 30% og víti 57,1%
 
Sama hvað KR reyndi, Þórsarar áttu alltaf svör, hættu aldrei og vörn þeirra var fyrnasterk frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu, einkennismerki nýliðanna og með græna drekann í stúkunni var KR aldrei að fara að sjá til sólar. Loks datt munurinn yfir 20 stigin og staðan 73-51 eftir þriðja leikhluta.
 
Þó KR hafi unnið fjórða leikhluta 21-25 var skaðinn engu að síður skeður. KR tók ekki þátt í glímunni sem boðið var upp á í Þorlákshöfn í kvöld og lágu því 94-76. Að sama skapi áttu Þórsarar vísast einn sinn besta leik á tímabilinu og að innleiða nýjan leikmann á þessum tímapunkti getur verið vægast sagt hættulegt þá gekk það eins og best verður á kosið.
 
Darrin Govens var frábær eins og áður hefur komið fram, Guðmundur og Darri áttu ljómandi góða spretti en hjá KR var Brown atkvæðamestur með 19 stig en honum hefur margoft áður farist leikstjórnunin betur úr hendi.
 
Heildarskor:
 
Þór Þorlákshöfn: Darrin Govens 30/5 fráköst/5 stoðsendingar/5 stolnir, Guðmundur Jónsson 17, Blagoj Janev 14/7 fráköst, Darri Hilmarsson 14, Joseph Henley 13/6 fráköst, Grétar Ingi Erlendsson 4/9 fráköst, Baldur Þór Ragnarsson 2/7 stoðsendingar, Þorsteinn Már Ragnarsson 0, Vilhjálmur Atli Björnsson 0, Sveinn Hafsteinn Gunnarsson 0, Erlendur Ágúst Stefánsson 0, Emil Karel Einarsson 0.
 
KR: Joshua Brown 19, Robert Lavon Ferguson 15/13 fráköst/5 stoðsendingar, Hreggviður Magnússon 8, Dejan Sencanski 8/6 fráköst, Martin Hermannsson 7, Jón Orri Kristjánsson 6, Finnur Atli Magnusson 6/7 fráköst, Emil Þór Jóhannsson 3, Kristófer Acox 2, Ágúst Angantýsson 2, Björn Kristjánsson 0, Skarphéðinn Freyr Ingason 0.
 
Nýting liðanna í leiknum:
Þór Þorlákshöfn: Tveggja 55,2%, þriggja 42,8% og víti 84,2%
KR: Tveggja 44,6%, þriggja 26% og víti 61,5%
 
Byrjunarliðin:
Þór Þorlákshöfn: Darrin Govens, Guðmundur Jónsson, Darri Hilmarsson, Grétar Ingi Erlendsson og Blago Janev
KR: Joshua Brown, Emil Þór Jóhannsson, Dejan Sencanski, Finnur Atli Magnússon og Robert Ferguson.
 
Dómarar leiksins: Sigmundur Már Herbertsson og Björgvin Rúnarsson
 
nonni@karfan.is