Í kvöld mætast Þór Þorlákshöfn og KR í sinni fjórðu undanúrslitaviðureign í Iceland Express deild karla. Staðan í einvíginu er 1-2 Þór í vil og sigur hjá þeim grænu í kvöld tryggir þeim sæti í úrslitaeinvíginu. Ef svo færi verða Þorlákshafnarbúar fyrstu nýliðarnir til að leika til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn. Leikurinn í kvöld verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport á hliðarrásinni Sport 3.
KR vann fyrsta leik liðanna með rosalegum þrist frá Joshua Brown en næstu tvo leiki unnu Þórsarar örugglega. Í leik tvö kölluðu Þórsarar inn nýjan mann, Joseph Henley, sem kom akademísku korteri fyrir leik til landsins í stað Matthew Hairston sem er meiddur. Innleiðingin á Henley gekk eins og í sögu sem lék í tæpar 26 mínútur í sínum fyrsta leik sem gerði 13 stig, tók 6 fráköst og gaf 3 stoðsendingar í sínum fyrsta leik. Í leik þrjú fór Darri Hilmarsson á kostum og í raun allt Þórsliðið á meðan heimamenn í KR voru flatir og lítt ógnandi. Nú eru meistararnir með bakið uppi við vegg og ef þeir falla út í kvöld eignast þeir þann vafasama heiður að verða fjórðu Íslandsmeistararnir í röð sem falla út í undanúrslitum leiktíðina eftir sigur á Íslandsmótinu.
 
Þá ætti enginn að láta þennan leik fram hjá sér fara, það er skemmtileg upplifun að fara á leik í Þorlákshöfn og stemmning þar er með mesta móti.
 
Þór Þorlákshöfn-KR
Leikur 4 – kl. 19:15 í kvöld
Fjölmennum á völlinn!