Nýliðar Þórs úr Þorlákshöfn hafa tryggt sér fjórða leikinn í úrslitaeinvíginu gegn Grindavík í Iceland Express deild karla. Fyrir leikinn í kvöld var ljóst að ef Grindavík færi með sigur af hólmi yrðu þeir Íslandsmeistarar, sigur þeirra lá í loftinu, allir búnir að afskrifa Þór líkt og Spartverjana í Laugaskarði hér tæpum 500 árum fyrir Krist. Þórsarar létu þó ekki brjóta sig á bak aftur og lögðu Grindvíkinga 91-98 frammi fyrir troðfullri Röstinni. Með sigrinum urðu Þórsarar fyrstu nýliðarnir í íslenskri körfuknattleikssögu til að vinna leik í úrslitakeppninni eftir að hún var sett á laggirnar!
Fjórði leikur liðanna fer svo fram í Þorlákshöfn næsta miðvikudag en þá blasir sami raunveruleiki við Þórsurum, allt undir og Íslandsmeistarabikarinn verður í húsinu. Veisluhöldunum er því slegið á frest um sinn í Grindavík og nú velta því eflaust margir fyrir sér sem töldu það víst að sópurinn væri á leiðinni á loft hvort nýliðarnir eigi raunhæfa möguleika á tveimur sigrum til viðbótar.
 
Jóhann Árni Ólafsson opnaði leikinn fyrir Grindvíkinga með þriggja stiga körfu og heimamenn höfðu frumkvæðið á upphafsmínútunum og komust í 8-4. Gestinir úr Þór voru þó ekki lengi að ná taktinum og komust í 15-16 eftir körfu frá Darra Hilmarssyni en liðin skiptust ört á forystunni í fyrsta leikhluta eða alls fimm sinnum og þrisvar var jafnt.
 
Baldur Þór Ragnarsson kom svellkaldur inn í fyrsta leikhluta og smellti þrist og kom Þór í 20-23 en Grindvíkingar minnkuðu muninn í 22-23 og þannig stóðu leikar eftir fyrsta leikhluta.
 
Þorlákshafnarbúar komu með hvell inn í annan leikhluta, gulir misnotuðu tvö teigskot í upphafi leikhlutans en Þór svaraði með hraðaupphlaupsþrist en þar var Darri Hilmarsson að verki og staðan 22-26 fyrir Þór. Henley var sprækur í leikhlutanum og þar sem Þórsarar voru virkir þátttakendur í frákastabaráttunni var allt annað að sjá til þeirra en í leik tvö.
 
Grindavík svaraði Þórs hvellettunni með 12-1 rakettu sem sprakk út í þristi frá Jóhanni Árna og það gaf enn frekar á Þorlákshafnarbátinn þegar Guðmundur Jónsson fékk óíþróttamannslega villu dæmda á sig og Benedikt Guðmundsson tæknivíti skömmu síðar fyrir að fara ekki að orðum dómarans um að hypja sig í þjálfaraboxið. Dágóð skvetta af mótlæti sem Þórsarar notuðu fyrir eldflaugabensín og svöruðu þessum mótbárum með því að loka fyrri hálfleik á 6-0 áhlaupi og leiða 44-49 í hálfleik.
 
Darrin Govens var með 16 stig, 4 fráköst og 7 stoðsendingar í fyrri hálfleik og Joseph Henley var með 14 stig og 6 fráköst. Hjá Grindavík var J´Nathan Bullock með 9 stig en þeir Watson og Páll Axel báðir með 8.
 
Skotnýting liðanna í hálfleik
Grindavík: Tveggja 45,8%, þriggja 33,3% og víti 100%
Þór Þorlákshöfn: Tveggja 52%, þriggja 33,3% og víti 78,5%
 
Heimamenn í Grindavík komu grimmir inn í síðari hálfleik og minnkuðu muninn í 47-49 eftir þriggja stiga körfu frá Giordan Watson. Guðmundur Jónsson komst skömmu síðar á blað í fyrsta sinn í leiknum með þrist fyrir gestina og breytti stöðunni í 47-54. Gestirnir tóku svo á rás og fengu blóðbragð í munninn þegar ,,spjaldið-oní" þristur datt hjá Guðmundi og Janev fylgdi svo í kjölfarið með annan og Þór náði 10 stiga forystu, 59-69 þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir af þriðja leikhluta. Þetta var mesti munur sem Þór hafði náð upp í einvíginu til þessa.
 
Giordan Watson átti svo lokaorðið fyrir Grindavík í leikhlutanum með regnbogakörfu í teignum yfir Þórsvörnina og staðan 65-76 fyrir fjórða og síðasta leikhluta en Þór vann þriðja leikhluta 21-27.
 
Þór hélt þetta um tíu stiga forystu framan af fjórða leikhluta og sama hvað heimamenn reyndu þá áttu gestirnir alltaf svör. Janev og Govens komu með þungavigtarkörfur þegar á þurfti að halda og Grindvíkingar áttu ekki afturkvæmt. Á lokasprettinum varð úr vítaþeytingur þar sem Grindavík var að brjóta, freista þess að stela boltanum og jafnvel skella niður stöku þrist til að brúa bilið en skaðinn var skeður og Þór kláraði leikinn 91-98.
 
Körfuboltalið hefur sjaldan verið jafn rækilega afskrifað fyrir leik eins og Þór var í kvöld en þeir stóðu af sér hrakspárnar og hafa nú fengið annað tækifæri til að sanna sig á heimavelli frammi fyrir Græna drekanum og öðrum Þorlákshafnarbúum.
Grindvíkingar að sama skapi eru í kunnuglegri stöðu, Íslandsbikarinn kominn í Röstina og þeir klára ekki verkefnið. 2009 og 1996 hringja einhverjum bjöllum, í fyrra skiptið urðu þeir meistarar en 2009 kláraði KR dæmið. Fjórði leikurinn ætti að vera forvitnilegur svo ekki sé nú meira sagt en þessar þrjár viðureignir hafa allar verið dúndurgóðar á sinn hátt og því spurning hvort þessi lið geti haldið áfram að koma okkur á óvart.
 
Heildarskor:
 
Grindavík: Giordan Watson 23/5 fráköst/8 stoðsendingar, Þorleifur Ólafsson 15/5 fráköst/5 stoðsendingar, J’Nathan Bullock 13/7 fráköst, Jóhann Árni Ólafsson 12/5 fráköst, Páll Axel Vilbergsson 10/4 fráköst, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 8/8 fráköst, Ryan Pettinella 7/6 fráköst, Björn Steinar Brynjólfsson 3, Ármann Vilbergsson 0, Einar Ómar Eyjólfsson 0, Ómar Örn Sævarsson 0, Þorsteinn Finnbogason 0.
 
Þór Þorlákshöfn: Darrin Govens 30/8 fráköst/11 stoðsendingar, Blagoj Janev 19/5 fráköst, Joseph Henley 19/11 fráköst, Guðmundur Jónsson 11/7 fráköst, Darri Hilmarsson 9, Grétar Ingi Erlendsson 6/4 fráköst, Baldur Þór Ragnarsson 4/5 fráköst, Emil Karel Einarsson 0, Erlendur Ágúst Stefánsson 0, Vilhjálmur Atli Björnsson 0, Sveinn Hafsteinn Gunnarsson 0, Þorsteinn Már Ragnarsson 0.
 
Byrjunarliðin:
Grindavík: Giordan Watson, Þorleifur Ólafsson, Jóhann Árni Ólafsson, J´Nathan Bullock og Sigurður Gunnar Þorsteinsson.
Þór Þorlákshöfn: Darrin Govens, Guðmundur Jónsson, Darri Hilmarsson, Joseph Henley og Blagoj Janev.
 
Skotnýting liðanna í leikslok:
Grindavík: Tveggja 53%, þriggja 25,9% og víti 72%
Þór Þorlákshöfn: Tveggja 50%, þriggja 34,6% og víti 75%
 
Mynd/ tomasz@karfan.is – Stríðsöskur að hætti spartverska konungsins Leonídasar.
Umfjöllun/ nonni@karfan.is