Dagur Kár Jónsson fór mikinn í dag þegar Stjarnan varð Íslandsmeistari í 11. flokki drengja með 79-80 spennusigri gegn KR. Dagur setti 36 stig í leiknum, tók 4 fráköst og gaf 8 stoðsendingar og var verðskuldað valinn besti maður leiksins. KR fékk gott færi til þess að stela sigrinum en lokasniðskot þeirra í leiknum dansaði af hringnum. Stjarnan var ávallt skrefi á undan í leiknum en KR gerði þunga atlögu á loksprettinum sem var æsispennandi.
Garðbæingar komust í 2-6 á upphafsmínútunum þar sem vesturbæingar fóru óvarlega með boltann og Christopher Cannon bætti svo við þrist fyrir Stjörnuna og staðan 2-9. Finnur Freyr Stefánsson þjálfari KR tók svo leikhlé fyrir sína menn í stöðunni 5-11 þegar fyrsti leikhluti var hálfnaður.
 
Garðbæingar voru með Odd Kristjánsson í strangri gæslu enda flugbeittur skotmaður þar á ferðinni og að sama skapi var KR að leika box-1 vörn gegn Degi Kár Jónssyni í Stjörnuliðinu. KR-ingar komust betur og betur í takt við leikinn en Stjarnann leiddi 20-25 að loknum fyrsta leikhluta.
 
Oddur Kristjánsson jafnaði metin fyrir KR með þriggja stiga körfu, 27-27, í upphafi annars leikhluta og KR-ingar voru að rúlla ferskum fótum gegn Degi Kár en hann fékk þó oftar en ekki sínu fram í sóknarleik Stjörnunnar. Darri Logi Skúlason mætti svo með fjögur Stjörnustig í röð og Garðbæingar leiddu 32-40 þegar KR tók leikhlé.
 
Heimamenn í röndóttu komu ákveðnir út úr leikhléinu og minnkuðu muninn í 38-41. Christopher Cannon fór þá á hinn endan og skellti niður þrist fyrir Stjörnuna og fékk villu að auki. Cannon brenndi af vítinu en Stjarnan náði sóknarfrákastinu og skoraði, 5 stiga sókn í hús og staðan 38-47 fyrir Stjörnuna. KR-ingar voru ekki af baki dottnir og lokuðu fyrri hálfleik með 6-2 áhlaupi og staðan því 44-49 fyrir Stjörnuna í hálfleik.
 
Dagur Kár var að gera KR lífið leitt í fyrri hálfleik með 18 stig og 5 stoðsendingar. Þeir Christopher Cannon og Magnús Bjarki Guðmundsson áttu einnig fínar ripsur og Tómas Hilmarsson var að daðra við tvennuna með 9 stig og 8 fráköst. Hjá KR var Oddur Kristjánsson með 16 stig og Hugi Hólm var með 9 stig og 6 fráköst.
 
Síðari hálfleikur hófst með smá hvell og þar voru KR-ingar að verki og komust yfir eftir glæsileg tilþrif hjá Oddi Kristjánssyni 58-57. Hugi Hólm datt einnig í gírinn í sóknarleik KR og var Garðbæingum erfiður á blokinni.
 
Dagur Kár Jónsson hélt áfram að hrella KR-inga og tveir þristar í röð frá kappanum breyttu stöðunni í 63-69 fyrir Stjörnuna og Dagur dottinn í 32 stig á innan við 30 mínútum! Hannes Rannversson lokaði leikhlutanum fyrir KR með tveimur vítaskotum og staðan 65-71 fyrir Stjörnuna er liðin héldu inn í fjórða og síðasta leikhluta. Liðunum gekk vel að finna körfuna fyrstu þrjá leikhlutana en bæði lið gerðu 20 stig eða meira í öllum þremur leikhlutunum.
 
Varnarleikurinn var allsráðandi í fjórða leikhluta þar sem hvorugt lið var nærri því að skora einhver 20 stig. Stjarnan opnaði fjórða leikhluta með 4-0 dembu og náðu upp tíu stiga mun, 65-75. Þrautgóðir KR-ingar voru ekki af baki dottnir, Hugi Hólm og Þorgeir Blöndal voru Stjörnunni erfiðir í teignum og einmitt þegar KR þurfti að fara að spýta í lófana gaf Oddur Kristjánsson tóninn með þrist sem minnkaði muninn í 73-79.
 
KR færðist nærri með hverri mínútu og Þorgeir Blöndal minnkaði muninn í 77-80 er hann skoraði og fékk villu að auki. Vítið vildi ekki niður og aftur var Þorgeir á ferðinni þegar 42 sekúndur voru eftir af leiknum með sterkt sóknarfrákast, körfu og villu að auki og í annað sinn vildi vítið ekki niður og Stjörnumenn leiddu því 79-80. Garðbæingar héldu í sókn en misstu boltann þegar 18 sekúndur voru til leiksloka. KR hélt af stað í vel útfærða lokasókn sem lauk með því að Hannes Rannversson fór upp endalínuna í sniðskot sem vildi ekki niður og Stjarnan fagnaði því sigri. Magnaður endasprettur þar sem sigurinn hefði getað dottið báðum megin og sárt fyrir kappa eins og Hannes að sætta sig við að boltinn hafi ekki dottið í lokasókninni en Hannes á lof skilið fyrir sína frammistöðu í dag með 11 stig, 2 fráköst og 3 stoðsendingar og þá var hann drífandi afl í varnarleiknum hjá KR. Hann dettur bara næst!
 
Dagur Kár Jónsson var magnaður í dag og KR átti fá svör við honum, 36 stig, 4 fráköst, 8 stoðsendingar og 4 stolnir boltar. Tómas Hilmarsson var einnig skæður með 15 stig og 16 fráköst og Darri Logi Skúlason barðist vel með 11 stig og 5 fráköst. Hjá KR voru þeir Oddur Kristjánsson og Hugi Hólm báðir með 21 stig en Hugi var auk þess með 12 fráköst. Þorgeir Blöndal og Hannes Rannversson bættu svo við 11 stigum.
 
Gangur leiksins:
20-25, 44-49, 65-71, 79-80.
 
Umfjöllun og mynd/ nonni@karfan.is