Stan Van Gundy, þjálfari Orlando Magic, er óvinsælasti þjálfari NBA að mati leikmanna deildarinnar. Sports Illustrated gerði könnum meðal leikmanna NBA-deildarinnar og var niðurstaðan að 22% leikmanna vildu síst af öllu spila fyrir Stan Van Gundy.
Þessi niðurstaða kemur ekki mikið á óvart en mikil dramatík hefur verið í herbúðum Orlando að undanförnu. Van Gundy sagði í viðtali á dögunum að Dwight Howard, aðalstjarna liðsins, hafi óskað eftir því fyrr í vetur við stjórnendur félagisns að Van Gundy yrði rekinn. Dwight Howard er meiddur í baki eins og er og er óvíst hvort hann verði meira með í vetur en talið er að hluti af þeirri skýringu að hann spili ekki meira með í vetur er að hann vilji ekki spila fyrir Van Gundy.
Næstur í kosningunni var Scott Skiles, þjálfari Milwaukee, með 14% atkvæða og þriðji var Byron Scott, þjálfari, Cleveland, með níu prósent atkvæða.
emil@karfan.is