,,Menn voru ekki að klára færin og við klikkum á tveimur vítum þegar fimmtán sekúndur eru eftir og það er bara of dýrt. Við hefðum jafnað leikinn og verið í toppstöðu til að vinna eða koma þessu í framlengingu," sagði Snorri Örn Arnaldsson aðstoðarþjálfari Stjörnunnar í samtali við Karfan.is eftir leik í Ásgarði í kvöld.
Stjarnan mátti þola 68-71 ósigur gegn Grindavík og eru nú 2-0 undir í einvíginu og halda næst í Röstina fyrir leik þrjú.
 
,,Næsti leikur er bara eins og bikarleikur og við ætlum að vinna þann bikarleik, það er ekkert annað í stöðunni," sagði Snorri en hvernig fannst honum liðið sitt svara því að leika án Fannars Helgasonar?
 
,,Liðið svaraði því fínt en við þurfum bara að klára, fullt af góðum færum, fullt af góðum skotum sem við erum ekki að setja niður og nú þurfa menn bara að stíga upp og ég held að þeir viti það sjálfir."
 
Þessir fyrstu tveir leikir liðanna, er svona háskóla-lykt af þeim? Öll áhersla á vörnina og lítið skorað?
 
,,Þetta er hörkubolti, tvö alvöru lið að mætast og það er ekkert gefið eftir. Dómararnir leyfa fína línu, menn fá að takast á og það er bara fínt." Bæði lið eru hörku varnarlið og því er skorið ekki hátt, baráttan og spennustið er hátt en nú þurfa menn að sýna úr hverju þeir eru gerðir því við ætlum að koma til Grindavíkur á mánudag og vinna."
 
Mynd/ nonni@karfan.isTeitur Örlygsson og Snorri Örn Arnaldsson þjálfarar Stjörnunnar ræða við Rúnar Birgi Gíslason eftirlitsdómara á leiknum. Á bekknum má sjá glitta í Fannar Helgason sem í dag var dæmdur í tveggja leikja bann.