Það voru Snæfellingar sem fengu oddleikinn í netin við Breiðafjörð þegar Þór frá Þorlákshöfn mætti í Stykkishólm í leik tvö en Snæfell sigraði 94-84. Þórsarar gátu farið í undanúrslit með sigri en Snæfell áttu bara einn séns. Liðin voru dyggilega studd af myndarskap frá Rauða hernum og Græna drekanum og fallegt að sjá þegar úrslitakeppnin er byrjuð af alvöru.
Leikurinn byrjaði af krafti og liðin skiptust á að hlaupa völlinn þar sem þau misstu og stálu boltum til skiptis og staðan 8-6 fyrir Snæfell eftir fimm mínútna leik. Einhver tilþrif fóru að sjást þegar leið á fyrsta hluta þegar þristar Nonna Mæju og Marquis Hall fóru að sjást og troðsla frá Quincy Cole og komst Snæfell í 20-15 með Þórsara nartandi í hælana. Guðmundur Jóns og Blagoj Janev smelltu þristum undir lokin og staðan 20-21 fyrir Þór eftir fyrsta hluta.
 
Þórsarar voru að ganga á lagið og komust fljótt í 24-29 eftir stórþrista Govens og Guðmundar í upphafi annars fjórðungs. Snæfellsmenn voru ekki af baki dottnir og jöfnuðu 31-31 þar sem Þórsarar fóru í villusöfnun. Leikurinn vrð hnífjafn út fyrri hálfleikinn og löngu ljóst að um baráttu yrði að ræða. Þórsarar höfðu yfir í hálfleik 47-49.
 
Snæfelli vantaði aðeins meiri framlög frá fleirum en Nonna Mæju og Marquis Hall en Nonni hafði sett 22 stig og Marqus 12 stig af þeim 47 sem komin voru og ljóst að fleiri þyrftu að stíga upp. Í liði Þórs var Darrin Govens kominn með 14 stig, Guðmundur Jóns og Blagoj Janev 12 stig hvor. Matthew Hairston 11 stig og voru þessir einir búnir að skora fyrir Þór sem höfðu verið beittir en liðin voru ekki að rúlla á mörgum skorurum.
 
Liðin skiptust algjörlega á að skora mest af þriðja hluta og leikurinn jafn æði oft. Þegar Nonni Mæju kveikti ljós 56-53, kveikti Darrin Govens annað á móti 56-56 og var þetta gangurinn í leiknum. Þegar staðan var 62-62 kom Hafþór Gunnarsson Snæfelli í 65-62 og Snæfell komst svo í 69-62 áður en flautað var út úr þriðja hluta með framlagi frá Hafþóri.
 
Snæfell var yfir 71-62 og hafði náð 11-0 áhlaupi þegar Þór gerði atlögu að þeim og jöfnuðu 73-73 og komust svo yfir með látum 73-75. Snæfell náði hins vegar með flottri vörn og góðri hittni að brjótast út úr krísunni, 83-77 og allt féll með þeim þegar þeir komust í 87-77 þegar tæpar fjórar mínútur voru eftir. Þórsarar komu aftur til baka með Darrin Govens sem smellti þremur og nálguðust með hraði 87-84 og virtust Snæfellsmenn ekki átta sig strax en svar frá Marquis Hall hinum megin setti Snæfell í fimmta gírinn 90-84 og tveir þristar og tvö víti geiguðu í kjölfarið hjá Þór. Pálmi kláraði eitt víti fyrir Snæfell, Sveinn Arnar þrist og 94-84 sigur Snæfells í höfn.
 
Oddaleikur er því staðreynd og verður hann á fimmtudaginn (Skírdag) 5. apríl kl 19:15 í Þorlákshöfn og þar verður eitthvað sem körfuboltaunnendur geta ekki misst af.
 
• Punktar.
 
• Jafnað var 15 sinnum í leiknum þar af 7 sinnum í þriðja leikhluta.
• Govens setti niður 7 af 12 þristum og hékk vel í Snæfelli.
• Liðin leiddu mest með 5-6 stigum heilt yfir.
• Snæfell náði 10 stiga forystu aðeins í lokin.
• Liðin skiptust á að leiða 18 sinnum i leiknum.
 
 
Snæfell:
Nonni Mæju 27/7 frák. Marquis S. Hall 22/10 frák/8 stoðs. Quincy H. Cole 22/13 frák. Pálmi Freyr Sigurgeirsson 11/4 frák/6 stoðs. Hafþór Ingi Gunnarsson 7. Sveinn Arnar Daviðsson 3. Ólafur Torfason 2. Óskar Hjartarson 0. Magnús Ingi 0. Þorbergur Helgi 0. Snjólfur Björnsson 0.
 
Þór:
Darrin Govens 32/6 frák. Blagoj Janev 18/6 frák. Matthew J. Hairston 16/7 frák. Guðmundur Jónsson 12/4 frák. Darri Hilmarsson 4/6 frák.Gretar Ingi Erlendsson 2/5frák. Baldur Ragnarsson 0. Emil Karel Einarsson 0. Erlendur Stefánsson 0. Bjarki Gylfason 0. Vilhjálmur Atli Björnsson 0. Þorsteinn Ragnarsson 0.
 
 
Umfjöllun/ Símon B. Hjaltalín.