,,Ég var drullustressaður enda klikkaði ég úr tveimur vítum í fyrri hálfleik og ég veit ekki hvort þið hafið séð það en ég var að skíta í mig á línunni," sagði Páll Axel Vilbergsson í samtali við Karfan.is í kvöld. Páll Axel gerði sigurstig Grindvíkinga af vítalínunni þegar deildarmeistararnir tóku 2-0 forystu gegn Stjörnunni í undanúrslitum Iceland Express deildar karla.
,,Ég var bara ekkert í takt við leikinn enda er maður oft spenntur og taugatrekktur og ef það væru engin fiðrildi í maganum þá væri ekkert gaman af þessu. Um leið og maður missir fiðrildin og alla spennuna úr þessu þá á maður bara að hætta," sagði Páll en var ekkert endilega á því að það væri einhver háskólaboltafnykur af þessari rimmu.
 
,,Hafa þessir leikir í undanúrslitum ekki bara einkennst af lágu stigaskori fyrir utan kannski Þór og KR í gær. Ég held að það sé bara spilað fast, taugarnar eru þandar og menn hitta kannski verr en vanalega," sagði Páll og viðurkenndi að útlitið hefði ekki verið gott hjá Grindavík framan af fjórða leikhluta.
 
,,Nei nei, við vorum bara lélegir, það er ekkert flóknara. Vorum að klára okkar sóknir illa, einhæft en við fengum opin skot en þau vildu ekki niður. Við höfum oft gert betur og vitum að við getum gert betur en þetta en aðal málið er að það er gríðarlega sterkt að vinna hér í Ásgarði. Að koma til baka og vinna þýðir ekki endilega að við höfum stolið þessum sigri. Það var bara sterkt hjá okkur að klára þetta."
 
nonni@karfan.is