Njarðvík hefur samið við Örvar Þór Kristjánsson, sem þjálfað hefur hjá Fjölni síðastliðin tvö ár, um að taka að sér stöðu aðstoðarþjálfara hjá liðinu.  Örvar mun því verða Einari Árna Jóhannssyni innan handar næstu tvö árin í það minnsta. Örvar mun einnig taka að sér að þjálfa tvo yngri flokka hjá félaginu.  Þetta kemur fram á heimasíðu Njarðvíkur, www.umfn.is í dag.  
 "Örvar semur við félagið til 2ja ára og eru stjórn deildarinnar sem og Unglingaráð ánægð að fá þennan frábæra félagsmann heim aftur.

Í vetur enduðu Örvar og hans menn í Fjölni í níunda sæti og þótti flestum það frábær árangur í ljósi þess að Fjölnismenn misstu sína sterkustu menn (Ægi Þór Steinarsson og Tómas Tómasson) í skóla í USA og þá var Fjölnisliðið í töluverðum vandræðum með meiðsli lykilmanna.  Þeir voru einnig eitt af þremur félögunum í vetur í efstu deild sem tefldu einungis tveimur erlendum leikmönnum fram (ásamt UMFN og Snæfell).  Þegar Örvar varð laus frá Fjölni var ljóst að UMFN vildi fá kappann heim og eins og áður segir þá fögnum við því mikið að sú er orðin raunin.

Heimasíðan ætlar að heyra betur í Örvari á næstu dögum og spyrja hann aðeins út í endurkomu hans í félagið og það sem framundan er".  

 Fengið af heimasíðu Njarðvíkur. 

 

gisli@karfan.is