Í háspennuleik Snæfells og Keflavíkur um Íslandsmeistaratitil kvenna í unglingaflokki í gær gerðist sá fátíði viðburður að dómarar leiksins sáu sig knúna að nýta nútímatækni til þess að útkljá hvort lokakarfa Keflavíkur hefði verið gild eða ekki.
Keflavík átti víti þegar 2,9 sekúndur voru eftir af leiknum sem klikkaði og Keflvíkingar gripu frákastið, það var farið beint upp í skot sem klikkaði.  Keflavík náði þá aftur frákastinu og náðu skoti að því er virtist áður en leikklukkan kláraðist.  Þetta var hins vegar ekki ljóst fyrr en dómarar leiksins höfðu farið afsíðis til þess að skoða upptökur af lokasekúndum leiksins.  Töluverð töf varð af þessu en tæknin tók sinn tíma og áætla má að töfin hafi verið allt að 15 mínútur.  Eggert Þór Aðalsteinsson dómari leiksins komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að karfan hefði verið gild og því þurfti að framlengja.  Eggert fékk við þá ákvörðun aðstoð frá dómurunum Davíð Hreiðarssyni og Halldór Geir Jenssyni sem voru staddir í húsinu þar sem þeir áttu að dæma næsta leik.  Hrafn Kristjánsson, Finnur Freyr Stefánsson og Bojan Desnica sem allir þjálfa hjá KR voru einnig til staðar en voru heyranlega meðvitaðir um að það væri ekki þeirra hlutverk að leggja dóm á málið.