Í kvöld fara fram tveir oddaleikir í 8-liða úrslitum Iceland Express deildar karla. Báðir hefjast þeir kl. 19:15 þegar Stjarnan tekur á móti Keflavík og nýliðar Þórs úr Þorlákshöfn taka á móti Snæfell í Icelandic Glacial Höllinni. Það lið sem hefur sigur í leikjum kvöldsins kemst áfram í undanúrslit.
Nú þegar hafa deildarmeistarar Grindavíkur og KR tryggt sig inn í undanúrslitin, Grindavík með 2-0 sigri á Njarðvík og KR með 2-0 sigri á Tindastól.
 
Stjarnan 1-1 Keflavík
Stjarnan vann fyrsta leik liðanna 95-87 í Ásgarði en Keflvíkingar jöfnuðu með 82-88 sigri í Toyota-höllinni. Ef eitthvað var til þess að kasta olíu á eld liðanna voru það atburðir gærdagsins þar sem Garðbæingar hugðust kæra atvik úr leik tvö þar sem Magnús Þór Gunnarsson fór með olnboga í andlit Marvins Valdimarssonar. Kærunni hélt ekki og Magnús Þór fer ekki í leikbann. Gott fólk, þið megið gera ráð fyrir látum í stúkunni og inni á vellinum, jafnvel spurning hvort Al Jazeera sjónvarpsstöðin sé bara ekki best til þess fallin að greina frá leik kvöldins!
 
Þór Þorlákshöfn 1-1 Snæfell
Þór vann fyrsta leikinn 82-77 með magnaðri endurkomu þar sem Snæfell hafði leitt allan tímann. Snæfell jafnaði svo metin í Hólminum með 84-94 sigri. Nú er komið að oddaleik hjá þessum öflugu liðum, eitthvað sem allir vildu sjá og flestir voru búnir að spá en mörgum hefur þótt þrautinni þyngra að rýna í þetta einvígi og það gildi enn um þennan oddaleik kvöldsins.
 
Það eru s.s. Ásgarður og Icelandic Glacial Höllin sem eru funheit í kvöld og er fólk hvatt til að mæta tímanlega enda von á fjölmenni á báðum vígstöðvum.
 
nonni@karfan.is