Tindastóll tapaði rétt í þessu fyrir KR-ingum í Síkinu með 81 stigi á móti 89. Tindastóll komst aldrei yfir allan leikinn þrátt fyrir að vera nálægt því af og til, en KR-ingarnir reyndust á endanum of sterkir og því fór sem fór. Tindastólsstrákarnir þurfa því að bíta í það súra epli að vera komnir í sumarfrí 1. apríl en KR hefur tryggt sér sæti í undanúrslitum Iceland Express deildarinnar.
 
Leikurinn byrjaði nokkuð jafnt, KR þó með yfirhöndina en liðin voru ákaflega lengi að taka við sér og lítið var skorað fyrstu mínúturnar. Leikmenn voru almennt að koma vel út í hvern annan og lítið af opnum skotum, t.d. elti Emil Jóhannsson Mo Miller allan völlinn og lét hann hafa vel fyrir því að koma boltanum upp völlinn. Það hafði greinilega einhver áhrif því Miller komst aldrei í þann gír sem hann hefur sýnt oft í vetur.
 
Annar leikhluti spilaðist nokkurn veginn eins og sá fyrri, KR-ingar leiddu en Tindastólsstrákarnir aldrei meira en nokkrum stigum á eftir. Sterkastur hjá KR var Dejan Sancanski sem var oft á réttum stað auk þess að vera ansi öflugur í opna leiknum og náði að klára nokkrar troðslur á fartinu.
 
Staðan í hálfleik 34-37 KR í vil. KR ingar komu síðan mun sterkari í seinni hálfleikinn. Eða það má kannski frekar segja að Tindastólsstrákarnir mættu seint og illa til leiks fyrstu mínúturnar í seinni hálfleik. KR-ingar voru að rúlla sínum sóknum vel en sóknarleikur heimamann var mun stirðari og KR náðu mest 14 stiga forystu þegar staðan var 41-55. Þá loksins fóru Stólarnir að taka við sér og mest munaði um að menn fóru að vera grimmari í vörninni og náðu þannig smá áhlaupi. Lætin náðu líklega hápunkti þegar Dejan ætlaði að troða boltanum í opnum leik enn og aftur en Curtis Allen náði að verja troðsluna á hæsta punkti. Rosalegasta varsla seinni tíma sem verður alveg örugglega ekki sýnd í Ríkissjónvarpinu.
 
Um miðjan þriðja leikhluta gerðist síðan afdrifaríkt atvik fyrir heimamenn þegar Mo Miller fékk högg á andlitið og lá óvígur eftir. Andlitsmeiðslin reyndust það alvarlega að Mo þurfti að yfirgefa völlinn og kom ekki meira við sögu í leiknum. Þótt að Miller hafi ekki verið kominn á skrið á þessum tímapunkti þá hefur fjórði leikhluti oft verið hans tími í vetur og því augljóst að þetta var mikið áfall fyrir Tindastól.
 
Á þessum tímapunkti voru KR-ingarnir yfir með svona 7-8 stigum og héldu því forskoti meira og minna út allan leikinn. Þrátt fyrir hetjulega baráttu Tindastólsmanna í fjórða leikhluta þá náðust ekki þess stopp sem þurfti og KR-ingar sigldu þessu örugglega í höfn með löngum sóknum og markvissum kerfum sem enduðu oftast með körfu. Þá virtist það ekki hafa áhrif á KR liðið þótt að allir leikmenn liðsins voru komnir í bullandi villuvandræði en KR ingarnir voru ótrúlega naskir að safna villum í kvöld sem gerist náttúrulega þegar menn eru að spila mjög fast. Þess má geta að dómarar leiksins, þeir Sigmundur Herberts og Rögnvaldur Hreiðars áttu afbragðsleik og í þau fáu skipti sem það kom flautufeill hjá þeim þá var það leiðrétt strax á eftir.
 
Sterkastur hjá KR-ingum var Dejan sem var gríðarlega öflugur í kvöld á öllum endum vallarins, en svo var Brown að koma með stig þegar Tindastóll sýndi einhverja tilburði til að koma með áhlaup. Hjá Tindastól átti Curtis Allen fínan leik og var að skora töluvert. Hefði mátt setja fleiri þriggja stiga skot niður af þeim sem hann tók en hann verður ekki eini maðurinn sakaður um það í kvöld. Þá var Helgi Rafn vel tilbúinn í slaginn og ekki oft sem maður sér leikmann fleygja sér á varamannabekk mótherjana tvisvar í sama leiknum til að bjarga boltanum. Fyrir utan allar hinar skutlurnar náttúrulega.
 
En KR ingarnir sterkari í kvöld, og í fyrsta leiknum, það er ekkert hægt að skafa neitt utan að því og ýmislegt þurfti að ganga upp til að Tindastólsliðið gæti unnið, t.d. hefði þriggja stiga nýtingin þurft að ná a.m.k 30% en svo var nú ekki í kvöld. Þannig er nú það.
 
Heildarskor:
 
Tindastóll: Curtis Allen 25/5 fráköst, Helgi Rafn Viggósson 15/5 fráköst, Friðrik Hreinsson 10, Þröstur Leó Jóhannsson 8, Igor Tratnik 8/6 fráköst, Svavar Atli Birgisson 7/4 fráköst, Maurice Miller 6, Hreinn Gunnar Birgisson 2, Helgi Freyr Margeirsson 0, Pálmi Geir Jónsson 0, Sigurður Páll Stefánsson 0.
 
KR: Dejan Sencanski 27/4 fráköst, Joshua Brown 18/9 fráköst/7 stoðsendingar, Finnur Atli Magnusson 14/5 fráköst, Robert Lavon Ferguson 10/5 fráköst, Martin Hermannsson 8, Hreggviður Magnússon 7, Skarphéðinn Freyr Ingason 3, Jón Orri Kristjánsson 2, Kristófer Acox 0, Emil Þór Jóhannsson 0/5 fráköst, Björn Kristjánsson 0, Ágúst Angantýsson 0.
 
Mynd/ Úr safni – tomasz@karfan.is
Umfjöllun af Tindastóll.is eftir Björn Inga Óskarsson