KR varð í dag Íslandsmeistari í drengjaflokki eftir 103-92 sigur á Breiðablik er liðin mættust í úrslitaleik flokksins í Ljónagryfjunni í Njarðvík. KR-ingar voru við stýrið allan leikinn, Oddur Kristjánsson og Martin Hermannsson hittu vel fyrir röndótta og Blikar náðu aldrei að brjóta ísinn almennilega og ógna forystu KR-inga. Martin Hermannsson var valinn besti maður leiksins og vantaði kappann aðeins eitt frákast upp á þrennuna, 29 stig, 9 fráköst og 11 stoðsendingar. Ekki síðri í dag voru þeir Oddur Kristjánsson og Kristófer Acox en þeir Ágúst Orrason og Sigtryggur Björnsson fóru fyrir Blikum.
Blikar og KR-ingar voru með læti frá fyrstu mínútu, stigunum rigndi í fyrsta leikhluta en í stöðunni 8-8 fóru vesturbæingar að slíta sig frá. Oddur Kristjánsson var að finna taktinn í upphafi leiks og gerði 7 af fyrstu 13 stigum KR í leiknum. Sigtryggur Björnsson byrjaði hressilega í liði Blika og var settur Martin Hermannssyni til höfuðs en Sigtryggur fékk snemma tvær villur. Kristófer Acox splæsti í troðslu og KR fór hægt og sígandi að auka bilið millum sín og Blika og röndóttir leiddu 23-32 eftir fyrsta leikhluta og ljóst að Blikar þyrftu að herða varnarleikinn eftir þessar upphafsmínútur.
 
Darri Atlason kom með góða baráttu inn í KR liðið í öðrum leikhluta og röndóttir héldu veru sinni áfram við stýrið. Oddur, Martin og Kristófer Acox voru allir mjög ógnandi í sóknarleik KR en Ágúst Orrason fór fyrir Blikum í sókninni.
 
Blikum gekk illa að dekka skotmenn KR, Oddur Kristjáns var í banastuði í fyrri hálfleik en það var bara eins og Blikar hefðu engar áhyggjur af því og því fengu þeir heil 61 stig yfir sig í fyrri hálfleik. KR leiddi s.s. 54-61 eftir fyrstu tuttugu mínúturnar þar sem Oddur Kristjáns var með 22 stig og Kristófer Acox var með 14. Hjá Blikum var Ágúst Orrason með 19 stig í háflelik og Sigtryggur Björnsson með 11 og 3 stoðsendingar.
 
Oddur Kristjáns hélt áfram að hrella Blika í þriðja leikhluta, þristur frá honum breytti stöðunni í 58-72 fyrir KR og Martin Hermannsson kom röndóttum svo í 63-77 með þrist um leið og skotklukkan rann út. Skotin voru að detta hjá KR en Blikar að sama skapi hriplekir í sínum varnaraðgerðum.
 
Martin Hermannsson kom KR í 63-83 af vítalínunni og munurinn orðinn 20 stig þegar Blikar fóru loks að lifna við. Blikar lokuðu þriðja leikhluta með 9-2 áhlaupi og staða því 72-85 að loknum þriðja leikhluta.
 
Alltaf þegar Blikar fóru að nálgast KR komu nauðsynleg stig hjá Vesturbæingum, Darri setti sterkan þrist og kom KR í 81-92, Martin var skömmu síðar á ferðinni með þrist og staðan 83-95. Sama hvað Blikar reyndu þeir hreinlega komust ekki nærri. Ágúst Orrason minnkaði muninn í 90-97 með erfiðum þrist fyrir Blika og Sigtryggur Arnar Björnsson lék glimrandi vel en KR sleppti ekki takinu og höfðu að lokum 103-92 sigur í leiknum. Í lok leiks fékk Snorri Hrafnkelsson slæma byltu og högg á bakið og var honum komið til aðstoðar, vonum að kappinn jafni sig sem fyrst.
 
Eins og áður segir var Martin Hermannsson með 29 stig, 9 fráköst og 11 stoðsendingar í liði KR. Oddur Kristjánsson bætti við 27 stigum og Kristófer Acox gerði 22 stig og tók 14 fráköst. Hjá Blikum var Ágúst Orrason með 29 stig, 9 fráköst og 8 stoðsendingar og Sigtryggur Arnar Björnsson bætti við 25 stigum, 7 fráköstum og 9 stoðsendingum.
 
Gangur leiksins:
23-32, 54-61, 72-85, 93-102
 
Mynd og umjföllun/ nonni@karfan.is