Keflvíkingar eru Íslandsmeistarar í 10. flokki kvenna eftir öruggan sigur á Grindavík í DHL-Höllinni. Keflvíkingar tóku frumkvæðið snemma í leiknum þar sem Sara Rún Hinriksdóttir var svo valin besti maður leiksins með 30 stig, 10 fráköst og 3 stoðsendingar. Lokatölur voru 71-44 Keflavík í vil en Grindvíkingar áttu nokkrar fínar rispur í leiknum þó Keflavík hafi ávallt verið við stýrið og landaði loks öruggum sigri.
Grindvíkingar gerðu fyrstu stig leiksins en Keflvíkingar svöruðu með þriggja stiga körfu og þar var Elínóra Guðlaug Einarsdóttir að verki. Keflvíkingar voru heitir fyrir utan í upphafi leiks en þrír af fjórum þristum þeirra í fyrsta leikhluta vildu niður. Grindvíkingar tóku leikhlé í stöðunni 16-7 fyrir Keflavík en staðan að leikhlutanum loknum var 24-11 Keflavík í vil og var munurinn ekki síst sprottinn úr fráköstum Keflavíkur sem gáfu þeim oft einn, tvo og jafnvel þrjá sénsa í mörgum sóknum.
 
Í upphafi annars leikhluta fékk Jón Guðmundsson þjálfari Keflavíkur dæmt á sig tæknivíti eftir samskipti sín við dómara leiksins. Grindvíkingar nýttu meðbyrinn og minnkuðu muninn í 26-15 en hægt og bítandi fóru Keflvíkingar að fikra sig betur og betur framúr Grindvíkingum. Ingibjörg Sigurðardóttir fékk svo sína fjórðu villu í liði Grindavíkur undir lok annars leikhluta en þá var hún búin að gera 13 af 18 stigum Grindavíkur í leiknum og erfitt fyrir gular að missa þennan beitta leikmann í villuvandræði.
 
Fráköstin og þéttur varnarleikur Keflavíkur skilaði þeim 38-20 forystu í hálfleik þar sem Sara Rún Hinriksdóttir var komin með 19 stig og 7 fráköst í Keflavíkurliðinu en Ingibjörg Sigurðardóttir 13 stig og 2 fráköst í liði Grindavíkur. Grindavík fór í svæðisvörn í öðrum leikhluta og hægði það aðeins á Keflavík sem skoruðu 24 stig í fyrsta leikhluta en 14 stig gegn svæði Grindavíkur í öðrum leikhluta.
 
Þriðji leikhluti var jafn en Keflvíkingar voru búnir að búa til góðan mun og á meðan Grindvíkingum fór að ganga betur sóknarlega slaknaði á vörninni og Keflvíkingar settu 20 stig á gular í leikhlutanum og leiddu því 58-38 fyrir fjórða og síðasta leikhluta. Þær Sara Rún Hinriksdóttir og Ingibjörg Sigurðardóttir elduðu saman grátt silfur í leikhlutanum, Sara með 30 stig og 10 fráköst eftir þrjá leikhluta, Ingibjörg með 25 stig og 5 fráköst. Magnað einvígi tveggja af efnilegri leikmönnum landsins.
 
Í fjórða leikhluta var þetta aðeins spurning um lokatölur, Sara Rún kvaddi leikinn þegar rúmar fimm mínútur voru eftir en þá fékk hún sína fimmtu villu en það kom ekki að sök fyrir Keflvíkinga sem kláruðu dæmið 71-44. Sara Rún kláraði með 30 stig, 10 fráköst og 3 stoðsendingar hjá Keflavík og Sandra Lind Þrastardóttir bætti við 8 stigum, 17 fráköstum og 3 stoðsendingum. Hjá Grindavík var Ingibjörg Sigurðardóttir með 25 stig og 7 fráköst og Rannveig Björnsdóttir bætti við 17 stigum og 11 fráköstum.
 
Gangur leiksins
24-11, 38-20, 58-38, 71-44
 
Mynd og umfjöllun/ nonni@karfan.is