,,Eins og við lékum fyrstu þrjá leikina kemur það ekkert á óvart að allir hafi haldið að Grindavík myndi sópa þetta einvígi. Við fórum bara í gegnum okkar mál og þetta lið gefst aldrei upp, í kvöld var bara að duga eða drepast og við náðum að gera það sem þurfti til að vinna þennan leik," sagði Blagoj Janev sigurreifur í samtali við Karfan.is eftir 91-98 sigur Þórs á Grindavík í Röstinni. Janev var drjúgur í kvöld með 19 stig og 5 fráköst.
,,Við vorum virkilega svekktir með frammistöðu okkar á heimavelli í leik tvö og ég er viss um að stuðningsmenn okkar voru á sama máli. Komandi hingað í kvöld vissum við að leiktíðin væri að veði og við mættum ákveðnir til leiks. Í fyrstu tveimur leikjunum voru Grindvíkingar sterkari en við og höfðu betur í fráköstunum en við bættum úr því í kvöld og útkoman var góð," sagði Janev en Þórsarar fóru líka af meiri krafti en áður inn í Grindavíkurteiginn.
 
,,Í fyrstu tveimur leikjunum gerðist þetta meira utan við þriggja stiga línuna hjá okkur svo við lögðum áherslu á það að ógna meira í teignum og í kvöld komu mikið af villum í teignum og það skilaði sér," sagði Janev og er ekki á þeim buxunum að leyfa gestaliði að verða Íslandsmeistari í Þorlákshöfn.
 
,,Það yrði blaut tuska í andlitið að sjá lið fagna titlinum á okkar heimavelli svo nú er bara mikil vinna hjá okkur framundan og við ætlum að leggja okkur alla í verkefnið," sagði Janev en það er ekki á vísan að róa með leiki þessara liða og ekki laust við að leikur Þórs hafi tekið miklum breytingum alla úrslitakeppnina.
 
,,Við höfum verið að spila ólíkt í þessum seríum, gegn Snæfell, KR og nú Grindavík. Vonandi erum við að ná skriðþunganum okkar til baka og þá ættum við að vera í góðum málum."
 
Mynd/ Hjalti Vignis
 
nonni@karfan.is