Í kvöld mætast Stjarnan og Grindavík í sinni fjórðu undanúrslitaviðureign í Iceland Express deild karla. Leikurinn hefst kl. 19:15 þar sem Grindvíkingar geta tryggt sér sæti í úrslitum eða Stjarnan knúið fram oddaleik sem þá fer fram í Röstinni í Grindavík.
Stjarnan minnkaði muninn í 2-1 síðast þegar liðin mættust með öruggum sigri í Röstinni og héldu þá Grindvíkingum í 65 stigum en það er það minnsta sem deildarmeistararnir hafa skorað á Íslandsmótinu þetta tímabilið. Gulir tóku leik eitt með níu stigum og leik tvö unnu þeir með þriggja stiga mun eftir æsispennandi slag í Ásgarði. Stjörnumenn með bakið upp við vegg mættu dýrvitlausir í Röstina og minnkuðu muninn í 2-1. Hvað gerist í kvöld?
 
Fólk er hvatt til að mæta tímanlega í Ásgarð enda búist við miklu fjölmenni. Stjörnumenn grilla fyrir leik svo hungraðir körfuboltaunnendur geta mætt vel tímanlega og skellt í sig borgara áður en fjörið hefst.