Hrafn Kristjánsson er kominn með KR inn í undanúrslit Iceland Express deildarinnar eftir að vesturbæingar lögðu Tindastól í Síkinu í kvöld. KR vann einvígi liðanna 2-0 og leikinn í kvöld 81-89.
Til hamingju með sigurinn. Hvernig fannst þér leikurinn?
 
“Mér fannst þetta vera ekta úrslitakeppnisleikur, við vissum að þetta yrði alltaf mjög erfitt og okkur voru mislagðar hendur varnarlega og komum okkur mjög fljótlega í villuvandræði. Mér fannst Tindastólsliðið standa sig stórkostlega í rauninni, því við vorum búnir að ná upp ákveðnum mun þegar að Miller meiðist. Mér fannst bara aðdáunarvert hvernig þeir bitu í skjaldarendur og tvíefldust þegar þetta gerðist, því þetta var ekki lítið áfall.”
 
Nú voru þið í töluverðri villusöfnun í leiknum, var lagt upp með að spila fast eða þróaðist leikurinn svona?
 
“Við vorum tilbúnir í að berjast og bjuggumst alveg við því að tekið yrði fast á okkur, en finnst að bæði lið hafi spilað álíka fast í kvöld. En það gerðist full oft að við vorum að missa mennina framhjá okkur og það er síðan bara 50/50 hvort það er dæmt þegar hjálpin kemur. Þannig að við vorum ekki að vinna forvinnuna rétt í vörninni.”
 
Er KR liðið síðan tilbúið í næstu umferð?
 
“Já, það finnst mér. Við erum búnir að setja inn þann leik sem við viljum spila, en við erum kannski ekki að spila hann í 40 mínútur, en það eru fá lið sem ná því. Leikmenn eru komnir á þær blaðsíður að þeir vita nokkun veginn hvað þeir eru ekki að gera rétt þegar það gerist og við vitum hvar okkar styrkleiki er. Þó kemur fyrir að þegar spennustigið hækkar og hitt liðið kemur með áhlaup að það gleymist stundum, en við mundum það nóg í þessum leik til að ná sigri.”  
 
Viðtal: JS