Hörður Axel Vilhjálmsson horfir nú í augun á nokkuð frábrugðnum veruleika en þeim sem körfuknattleiksfólk glímir við í íslenska boltanum. Hörður og lið hans MBC tryggðu sér um helgina sæti í þýsku úrvalsdeildinni á nýjan leik eftir 3-1 sigur á Crailsheim Merlins í undanúrslitum Pro A deildarinnar. Karfan.is tók púlsinn á Herði sem á föstudag heldur inn í úrslitaeinvígi sem verður nokkurskonar léttvigtarviðureign þar sem MBC er eina liðið úr Pro A deildinni sem fékk grænt ljós á það að vinna sér inn sæti í Bundesligunni.
,,Það voru þrjú lið sem sóttu um að komast upp í Bundesliguna og við vorum eina Pro A liðið sem var samþykkt. Líklega mun Giessen, fyrrum lið Loga Gunnarssonar, fá að kaupa sæti sitt að nýju í Bundesligunni en þeir féllu úr henni en fá þetta tækifæri þar sem við förum einir upp úr Pro A deildinni," sagði Hörður í samtali við Karfan.is í dag. Tveimur öðrum Pro A liðum var hafnað um sæti í Bundesligunni þar sem þau uppfylltu ekki þær kröfur sem úrvalsdeildin setur.
 
,,Öll umgjörð, húsnæðið og mannskapurinn er eins og hjá Bundesliguliði hérna hjá okkur, við erum m.a. á mjög svipuðum fjárhag og liðin í úrvalsdeild svo það breyttist ekki mikið hjá MBC nema liðið féll jú vissulega niður í Pro A deildina," sagði Hörður en úrslitaeinvígið er framundan og það hefst á föstudag og alvaran verður mögulega eitthvað minni en við á Íslandi eigum að þekkja þegar kemur að úrslitaeinvígi.
 
,,Ég vil auðvitað vinna þetta allt saman en þetta er sérstakt. Ef þú vinnur í undanúrslitum þá vinnur þú þér inn sæti í Bundesligunni eins og við gerðum. Þau lið sem leika til úrslita fara svo í Bundesliguna en VfL Kirchheim fara ekki upp þó þeir mæti okkur í úrslitum. MBC var s.s. eina liðið í Pro A deildinni sem uppfyllti þær kröfur sem Bundesligan setur. Þetta er sérstakt en ég vil þó ekki meina að menn séu komnir á hælana og markmiðið var alltaf að fara upp og aldrei neitt annað rætt í þeim efnum," sagið Hörður en MBC og Kirchheim leika tvo leiki í úrslitum, fyrsti á föstudag á heimavelli Kirchheim og svo aftur á sunnudag á heimavelli MBC.
 
Hörður situr ekki auðum höndum ytra en hann og Jóhann Árni Ólafsson munu síðar í sumar standa að einstaklingsbúðum og þegar er orðið uppselt í búðirnar.
 
,,Þetta verður vonandi gaman, við höfum sett þetta verkefni skemmtilega upp og vonandi gengur þetta bara vel. Okkur langaði að snúa okkur að einstaklingsþjálfuninni enda margir inni í skellinni oft og tíðum og leita sér ekki hjálpar til að verða betri heldur bíða t.d. eftir því að einhver þjálfari komi til þeirra. Við viljum einblína á það að iðkendurnir séu duglegir að leita til þjálfaranna og sem dæmi þá fór ég til Benna (Benedikt Guðmundsson) og var að gera einstaklingsæfingar hjá honum á miðju tímabili þegar hann var að þjálfa annað lið. Það eru allir tilbúnir að veita þeim aðstoð sem vilja leggja mikið á sig."
 
Varðandi áframhaldið í Þýskalandi þá gerði Hörður ráð fyrir því að hans mál myndu skýrast á næstunni og farið verði yfir stöðuna strax að úrslitaeinvíginu loknu.
 
nonni@karfan.is