Í kvöld hefst úrslitaeinvígi Njarðvíkur og Hauka í Iceland Express deild kvenna. Þessi fyrsti leikur liðanna fer fram í Ljónagryfjunni. Eins og flestum er kunnugt hafa Haukar verið að sýna frá sínum leikjum í beinum netútsendingum í vetur á Haukar TV. Nú hafa Njarðvíkingar staðfest að ekki verði heimilt að sýna í beinni á netinu frá leikjum í Ljónagryfjunni. Davíð Páll Viðarsson stjórnarmaður UMFN sagði við Karfan.is að ástæðan væri fyrst og fremst peningalegs eðlis enda vildi stjórn UMFN fyrir alla muni fá fólk á leikina.
Haukar TV fá ekki að sýna á netinu frá leikjum í Ljónagryfjunni. Hvaða ástæður liggja þar að baki?
 
Fyrst og fremst peningalegs eðlis. Haukamenn segjast hafa fengið um 600 IP tölur skráðar inná Hauka vefsíðuna þegar verið er að sýna frá þeirra leikjum. Við sjáum fyrir okkur að það verða þá færri á okkar heimaleikjum ef HaukarTV myndi sýna frá þeim leikjum.
 
Ef RÚV eða Stöð 2 Sport vilja sýna í beinni frá þessum leikjum í Ljónagryfjunni verður þeim þá líka meinaður aðgangur að viðkomandi leik?
 
Við höfum ekki fengið neina formlega beiðni þess efnis inná okkar borð, þannig að það yrði bara að skoðast. Ef tekið er mið af undanförnum árum í kvennakörfuni, þá er einn leikur sýndur í beinni útsendingu á ári, það er bikarúrslitaleikur kvenna. Hvorki RÚV eða Stöð 2 hafa ekkert verið að hoppa hæð sína yfir kvennakörfuboltanum á Íslandi. Því miður þá situr karfan ekki við sama borð eins og t.d KSÍ sem selja útsendingarrétt af fótboltanum á tugi miljóna. En til þess að áhorf aukist þá þarf meiri umfjöllun og meiri útsendingar hvort sem það er vefútsendingar eða sjónvarpsútsendingar. En félöginn mega ekki blæða út á meðan, þar sem allir flykkjast bakvið sjónvarpið eða tölvuna. Við viljum fá fólk á leikina okkar.
Við erum kominn í úrslit kvenna og við það að koma í úrslit, þá er mun dýrara að halda leiki. Dómararkostnaður hækkar um 110% frá venjulegum deildarleik en á sama tíma eru góðir tekjumöguleikar fyrir okkur. Þess vegna má ekkert klikka, það munar um hvern seldan miða.
 
Hefur UMFN einhver plön um að hefja sýninar í beinni á netinu frá sínum heimaleikjum í náinni framtíð?
 
Já það hefur verið á stefnuskrá okkar að gera það. En við erum samt þeirrar skoðunar að það megi gera þetta betur með t.d betri útsendingarbúnaði og tengingum. Það er alltof mikið flökt, ójafnvægi og annað slíkt á þessum útsendingum. Ef við myndum gera þetta þá færum við þá leið að fjárfesta í betri búnaði sem yrði jafnframt dýrari. En þá myndum við selja inná okkar leiki í gegnum vefinn. Við sjáum fyrir okkur að þetta gæti  verið ný tekjulind fyrir okkar félag til lengri tíma, en ekki til styttri tíma eins og alltof margir spá í.
 
nonni@karfan.is